Erlent

Japanar viðurkenna ekki drykkjusýki og auka drykkjuna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Stund milli stríða. Japanar eru iðnir við kolann þegar kemur að því að fá sér einn bröndóttan.
Stund milli stríða. Japanar eru iðnir við kolann þegar kemur að því að fá sér einn bröndóttan.

Konur og eldra fólk í Japan neyta nú sífellt meira áfengis en áfengissýki er þó ekki viðurkennd sem sjúkdómur þar í landi.

Áfengisdrykkja Japana hefur sexfaldast á síðustu 50 árum í takt við efnahagslega uppsveiflu landsins. Aðgengi að áfengi er einnig mjög auðvelt í Japan, það er selt í flestum almennum verslunum og í sjálfsölum auk þess sem enginn hörgull er á áfengisauglýsingum í sjónvarpi. Þá er stíf drykkja í tengslum við atvinnu- og viðskiptalíf daglegt brauð á japönskum vinnustöðum og varla er sá viðskiptafundur finnanlegur að fundargestir fái sér ekki í staupinu til að liðka fyrir samningum.

Þrátt fyrir þetta teljast ekki nema um 800.000 Japanar haldnir áfengissýki, eða um 0,6 prósent þjóðarinnar. Það hlutfall er lægra en í Bandaríkjunum og Evrópu en um leið er drykkjan innan ákveðinna hópa japanska þjóðfélagsins að aukast hröðum skrefum og gildir það til dæmis um konur og eldra fólk. Kostnaður þjóðfélagsins vegna ofdrykkju nemur þó svimandi upphæð, eða rúmum 9.000 milljörðum íslenskra króna.

Katsuya Maruyama hjá áfengismeðferðardeild Kurihama-spítalans segir vandamálið einkum felast í því að japanskt samfélag sé allt of umburðarlynt þegar kemur að ofdrykkju. Þar af leiðandi sé mun erfiðara fyrir ofdrykkjufólk Japans að átta sig á því hvenær drykkja þess teljist orðin til vandræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×