Erlent

Lausn Líbíumanns vekur reiði og deilur

Fagnað í Líbíu Líbíumenn tóku vel á móti Abdel Baset al-Megrahi á flugvellinum í Trípólí þegar hann kom þangað í fyrrakvöld.Nordicphotos/AFP
Fagnað í Líbíu Líbíumenn tóku vel á móti Abdel Baset al-Megrahi á flugvellinum í Trípólí þegar hann kom þangað í fyrrakvöld.Nordicphotos/AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa gagnrýnt ákvörðun dómsmálaráðherra Skotlands um að leysa Líbíumanninn Abdel Baset al-Megrahi úr haldi.

David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, segir að móttökurnar sem al-Megrahi fékk í Líbíu hafi verið afar óviðeigandi. Barack Obama Bandaríkjaforseti segir það hins vegar mistök að hafa látið hann lausan, og ættingjar hinna látnu hafa mótmælt harðlega.

Al-Megrahi hélt til Líbíu á fimmtudag, sama dag og hann fékk frelsið. Hann er alvarlega veikur af krabbameini og á ekki langt eftir. Kenny MacAskill, dómsmálaráðherra Skotlands, segist hafa tekið ákvörðun sína af mannúðarástæðum.

Þúsundir ungra manna mættu á flugvöllinn í Trípólí, höfuðborg Líbíu, til að fagna al-Megrahi þegar hann kom þangað. Líbíustjórn hefur hins vegar gætt þess að al-Megrahi sjáist ekki opinberlega síðan hann kom þangað, líklega af tillitssemi við bresk og bandarísk stjórnvöld. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafði áður en al-Megrahi var látinn laus skrifað Moammar Gaddafi, leiðtoga Líbíu, og beðið hann um að sýna nærgætni.

Richard Dalton, fyrrverandi sendiherra Breta í Líbíu, segir að móttökur al-Megrahis hafi verið afar lágstemmdar miðað við það sem hefðbundnar kurteisisvenjur þar í landi boða.

Abdel Baset al-Megrahi er eini maðurinn, sem hlotið hefur dóm vegna Lockerbie-málsins. Hann var starfsmaður leyniþjónustu Líbíu þegar sprenging varð í bandarískri farþegaþotu yfir skoska bænum Lockerbie árið 1988. Allir farþegar og áhöfn vélarinnar fórust, samtals 259 manns, auk ellefu manna á jörðu niðri sem létu lífið þegar vélin hrapaði.

Al-Megrahi hélt ávallt fram sakleysi sínu. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér þegar hann var látinn laus á fimmtudag segist hann þakklátur skosku þjóðinni, þrátt fyrir að dvöl hans í fangelsinu hafi verið ömurleg.

Jafnframt ítrekar hann enn sakleysi sitt, en segist hafa hætt við að áfrýja málinu vegna veikinda sinna. „Það sem eftir er af lífi mínu þarf ég nú að lifa í skugga þess að dómur minn var rangur."

Fljótlega eftir hrap flugvélarinnar beindust böndin að leyniþjónustu Líbíu. Árið 2001 var al-Megrahi dæmdur í lífstíðarfangelsi og hafði afplánað átta ár þegar hann var látinn laus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×