Viðskipti innlent

Alcoa hefur ekki fært neinar skuldir yfir á Alcoa á Íslandi

Alcoa hefur ekki fært neinar skuldir yfir á Alcoa á Íslandi heldur er hér um fjárfestingu í uppbyggingu álvers á Reyðarfirði að ræða. Skuldir Alcoa á Íslandi eru til móðurfélags og á ábyrgð þess. Þessar lánveitingar eru eingöngu tilkomnar vegna fjárfestinga félagsins hérlendis.

 

Þetta kemur fram í athugasemd sem Alcoa hefur sent frá sér. Þar segir að í Fréttablaðinu, miðvikudaginn 29. ágúst, sé „afar villandi forsíðufrétt" um áliðnað landsmanna undir fyrirsögninni „Álfyrirtækin gera skuldastöðu þjóðarbúsins verri."

 

Í fréttinni er m.a. fullyrt að „móðurfélög álfyrirtækjanna" hafi fært „gríðarlegar skuldir yfir á dótturfélög sín" hérlendis og valdi þar með verra mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á skuldastöðu Íslands.

 

Íslensk stjórnvöld bera enga ábyrgð á skuldastöðu Alcoa á Íslandi og ætti hún því ekki að hafa nein áhrif á skuldastöðu Íslands. Ál er afar verðmæt og gjaldeyrisskapandi útflutningsvara frá Íslandi og samkvæmt Hagstofu Íslands var útflutningsverðmæti áls 182 milljarðar íslenskra króna árið 2008.

Það er rétt sem blaðið hefur eftir Svein Öygard, seðlabankastjóra að „bankinn líti svo á að móðurfélögin stæðu á bak við skuldir dótturfélaga álfyrirtækjanna." Umræddar skuldir Alcoa á Íslandi eru því alfarið á ábyrgð Alcoa Inc.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×