Erlent

Ísraelar gagnrýna Bandaríkjamenn

Ísraelska utanríkisráðuneytið hefur gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir að hvetja landið til þess að gerast aðili að sáttmálanum við bann um dreifingu kjarnorkuvopna.

Almennt er talið að Ísrael eigi talsvert af kjarnorkusprengjum í vopnabúri sínu. Það er hinsvegar stefna landsins að hvorki játa því né neita.

189 lönd hafa undirritað sáttmála um bann við dreifingu kjarnorkuvopna. Þessi ríki eru nú á tveggja vikna ráðstefnu um framkvæmd sáttmálans.

Aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rose Gottemöller, sagði á ráðstefnunni að það væri takmark Bandaríkjanna að Indland, Ísrael, Pakistan og Norður Kórea gerðust aðilar.

Þetta hefur vakið óróa í Ísrael þar sem óhugsandi er að aðstoðar utanríkisráðherra lýsi þessari skoðun án þess að hafa til þess umboð af hæstu hæðum. Háttsettur embættismaður í ísraelska utanríkisráðuneytinu sagði að erfitt væri að skila ummæli bandaríska ráðherrans.

Sáttmálinn hefði sýnt sig í að vera meingallaður og máttlaus og hefði ekki megnað að koma í veg fyrir að óvinaríki Ísraels eins og Írak og Líbýa reyndu að koma sér upp kjarnavopnum.

Svo ekki væri minnst á Íran. Bæði Ísrael og Vesturlönd telja ógn felast í kjarnorkuáætlun Írana þótt þarlendir fullyrði að þeir hyggist aðeins nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×