Viðskipti innlent

Lárus og Bjarni millifærðu hundruð milljóna rétt fyrir hrun

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis. Mynd/Valli
Í skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst og Young um Glitni kemur fram að þáverandi forstjóri bankans, Lárus Welding, og forveri hans, Bjarni Ármannsson, hafi millifært hundruð milljóna úr bankanum skömmu fyrir hrunið.

Í fréttum RÚV kom fram að í skýrslunni hafi meðal annars verið kannaðar óvenjulegar peningafærslur milli fjármálafyrirtækja og landa, þar á meðal háar peningafærslur í september.

Þar kemur fram að Lárus hafi fært nánast allt af reikningum sínum í bankanum, um 318 milljónir króna.

Ernst og Young hafi hins vegar ekki fundið neina millifærslu úr landi beint frá Lárusi, en KPMG, sem hóf rannsóknina, hafi fundið færslu til Bretlands á nafni eiginkonu Lárusar. Færslan hafi numið 325 milljónum króna.

Ekki er víst hvort sú færsla komi af reikningum Lárusar. Í skýrslunni er mælst til að Fjármálaeftirlitið fylgi málinu eftir.

Þar er einnig komið inn á nokkrar færslur Bjarna Ármansssonar, sem alls numu 262 milljónum króna. Hæsta upphæðin var færð tæpri viku fyrir ríkisvæðingu bankans.

Að auki er fjallað um háar millifærslur tengdra einstaklinga í skýrslunni, þar á meðal Einars Sveinssonar, fyrrum stjórnarmanns í bankanum, skömmu fyrir ríkisvæðinguna.

Það mun þó tekið fram í skýrslunni að ekki sé ólöglegt að færa fé af reikningum. Þó sé ástæða til þess að Fjármálaeftirlitið kanni málið betur, ekki síst því upphæðirnar eru háar að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×