Erlent

Fundu jarðneskar leifar ungrar konu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Breska lögreglan hefur staðfest að um jarðneskar leifar Melanie Hall sé að ræða. Mynd/ AFP.
Breska lögreglan hefur staðfest að um jarðneskar leifar Melanie Hall sé að ræða. Mynd/ AFP.
Jarðneskar leifar ungrar breskrar konu sem hvarf sporlaust fyrir þrettán arum síðan fundust fyrr í þessari viku.

Konan, sem hét Melanie Hall, var 25 ára gömul þegar að hún hvarf eftir að hafa yfirgefið næturklúbb kvöld eitt árið 1996 eftir rifrildi við unnusta sinn.

Málið hlaut mikla umfjöllun á sínum tíma og 10 þúsund pundum var heitið hverjum sem gæti gefið upplýsingar um hvarf hennar. Þrátt fyrir það fannst lík hennar aldrei og formlegri rannsókn á málinu var hætt.

Síðastliðinn mánudag fannst hins vegar poki við hraðbraut norður af borginni Bristol. Í pokanum voru mannabein, þar með talin hauskúpa. Fleiri bein fundust skammt frá.

Meinafræðingar staðfestu að beinin væru af konu og í fyrrakvöld staðfesti breska lögreglan síðan að um væri að ræða jarðneskar leifar Hall.

Breska blaðið Telegraph segir að Hall og unnusti hennar hafi rifist heiftarlega á næturklúbbnum kvöldið sem hún hvarf. Ástæðan hafi verið sú að hún hafi verið að dansa við annan karlmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×