Viðskipti innlent

Samdrátturinn heldur áfram í smávöruversluninni

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,9% á föstu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 9.7% á breytilegu verðlagi.

Leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í október 0,3% frá síðasta mánuði á föstu verðlagi og 4,1% frá október mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 14,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Þetta kemur fram í nýju yfirliti frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að velta í áfengisverslun minnkaði um 25,1% í október miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi. Salan dróst saman um 0,7% frá september mánuði þegar tekið hefur verið tillit til verðlagsbreytinga og árstíðarbundinna þátta. Verð á áfengi var 33,7% hærra í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Fataverslun var 11,7% minni í október miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 5,1% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hafði í október hækkað um 19,1% frá sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 18,7% í október á föstu verðlagi og jókst um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Í október hafði verð á skóm hækkað um 25,7% frá síðasta ári.

Velta húsgagnaverslana var um 24,1% minni í október en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 14,7% minni á breytilegu verðlagi. Þess má geta að velta síðasta mánaðar var einnig lægri en hún var í október árið 2007. Í síðastliðnum mánuði höfðu húsgögn hækkað um 12,3% frá sama tíma árið áður.

Sala á raftækjum dróst í október saman um 28,2% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 6,2% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Á milli mánaðanna september og október dróst raftækjasala saman um 1,5% á föstu verðlagi.

Enn sjást ekki merki um bata í smásöluverslun og stendur samdráttarskeið yfir sem segja má að hafi hafist á vormánuðum ársins 2008. Sem fyrr er það sala varanlegra neysluvara sem hefur dregist hvað mest saman en síðan Rannsóknasetur verslunarinnar hóf að safna gögnum um sölu húsgagna í ágúst 2007 hefur velta minnkað um nær helming.

Raunlækkun veltu á þessum rúmu tveim árum er yfir 60%, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar verðlags. Svipuð staða birtist þegar horft er til sölu raftækja, en á þeim markaði er samdráttur verulegur.

Velta í áfengissölu lækkaði um rúm 25% milli ára í október síðastliðnum á föstu verðlagi en hafa verður í huga að sérstakar aðstæður voru uppi í október 2008. Föstudaginn 31. október í fyrra tóku Vínbúðirnar við rúmlega 44 þúsund viðskiptavinum, þegar fréttir bárust af því að hækkun á áfengisgjaldi væri væntanleg næsta dag. Veruleg veltuaukning mældist vegna þessa í október á kostnað veltunnar í næsta mánuði á eftir. Það má því ætla að munur milli ára í áfengissölu minnki í nóvember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×