Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin virka betur, aflandsgengið hrapar

Sú herðing sem varð á gjaldeyrishöftunum fyrir mánuði síðan virkar vel ef mið er tekið af gengi krónunnar að undanförnu á aflandsmarkaðinum. Samkvæmt skráningu þess á vefsíðunni keldan.is er sölugengið á aflandsmarkaðinum komið í 245 kr. fyrir evruna en í síðustu viku var það 232 kr.

Viðskipti með krónuna á aflandsmarkaðinum eru háð framboði og eftirspurn eins og á öðrum mörkuðum. Það að menn bjóði hærra verð þar þýðir einfaldlega að framboðið á krónum er meira en eftirspurnin.

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Íslandsbanka segir að nýjasta herðingin á gjaldeyrishöftunum hafi nánast lokað fyrir öll viðskipti með krónur á aflandsmarkaðinum. „Þau hafa verið mjög lítil og strjál á síðustu vikum," segir Ingólfur.

Ingólfur segir ennfremur að herðingin á höftnum samfara auknu eftirliti með krónuviðskiptum hafi haft tilætluð áhrif, það er svo gott sem öll krónuviðskipti fari nú fram á hinum opinbera markaði.

Nýtt: Nú fyrir hádegið var sölugengið á aflandsmarkaðinum komið í 278 kr. fyrir evruna samkvæmt keldan.is. Þetta þýðir að öllum líkindum að engir kaupendur á krónum eru til staðar á markaðinum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×