Viðskipti innlent

Enginn áhugi erlendra krónubréfaeigenda á skiptum

Enn sem komið er virðist enginn áhugi á því meðal erlendra eigenda krónubréfa hér á landi að skipta á þeim fyrir langtímaskuldabréf hjá þeim íslensku fyrirtækjum sem hafa tekjur sínar í gjaldeyri.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum bendir þetta til þess að líklega séu erlendir eigendur bréfanna ekki mjög óþolinmóðir fyrst engin skipti hafa farið fram.

Töluverð umræða var í vor um þessa leið því talið var að með henni mætti létta verulega á þrýstingi á gengi krónunnar. Voru skuldabréf fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og Norðurál, Marel Food Systems og stoðtækjafyrirtækið Össur nefnd sem fjárfestingarkostir fyrir krónubréfaeigendurna.

Hugmyndin var sú að fyrrgreind fyrirtæki myndu gefa út skuldabréf í erlendri mynt til langs tíma og að krónubréfaeigendurnir gætu skipt á þeim fyrir sín bréf.

Hjá Landsvirkjun var mikill áhugi á að fara í svona skipti og í fréttum kom fram að Landsvirkjun vildi koma allt að 50 milljörðum kr. af krónubréfum í lóg með þessum hætti.

Krónubréfin eru raunar á hraðleið með að hverfa úr íslenska hagkerfinu þar sem eigendur þeirra hafa verið iðnir við að breyta þeim í ríkisskuldabréf á þessu ári.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×