Viðskipti innlent

180 milljarða krafa í þrotabú Straums

Ingimar Karl Helgason skrifar

Íslensku bankarnir gera hundrað og áttatíu milljarða króna kröfu í bú Straums. Landsbankinn á tæpan helming krafna.

Launakröfur í búið nema um 2,5 milljörðum króna. Fyrrverandi forstjóri gerir kröfu um tæpan fjórðung allra launakrafna. Kröfur lífeyrissjóða nema hátt í 24 milljarða króna.

Farið var yfir kröfur í bú Straums á lokuðum fundi með kröfuhöfum í morgun. Bankinn sjálfur segir að heildarskuldbindingar sínar nemi um 1,3 milljörðum evra. Það gerir í krónum ríflega 230 milljarðar, á gengi dagsins.





Eignir eiga að koma á móti, en spurning er um hvers virði þær verða þegar upp er staðið. Fréttastofu er sagt að vilji sé fyrir því hjá kröfuhöfum að láta Straum ekki fara í gjaldþrot. Færi svo, er reiknað með að aðeins fengist upp í 8 prósent krafna. Verði reynt að halda áfram megi koma eignum í verð smám saman og ná um eða yfir helmingi.

En hvaða kröfur eru þetta? Það kemur fram í yfirliti krafna sem fréttastofa hefur undir höndum. Þetta eru lánasamningar, skuldabréf, afleiðusamningar, innlán, launakröfur og svo almennir reikningar, til dæmis frá lögfræðistofum, kauphöllinni og auglýsingastofu, svo dæmi séu tekin.





Og hverjir gera kröfurnar?

Íslensku bankarnir gera kröfu um 180 milljarða króna. Kröfur gamla Landsbankans nema um 80 milljörðum. Kröfur Nýja Landsbankans eru innan við tíu milljarðar. Glitnir gerir um 40 milljarða kröfu. Kröfur annarra íslenskra banka eru lægri.

Erlendir bankar gera einnig tugmilljarða kröfu í bú Straums.

Lífeyrissjóðir eiga mikla peninga inni hjá Straumi. Í allt tæpa 24 milljarða króna. Bæði voru lífeyrissjóðirnir með skuldabréf og innlán. Fróðlegt er að sjá hversu mikið einstakir sjóðir settu í Straum.

En launakröfur eru um eitthundrað og þær eru miklar. Í heildina krefjast starfsmenn um 2,5 milljarða króna. Lægsta krafan nemur 74 þúsundum krónum og sú hæsta nemur tæplega 640 milljónum. Hana gerir forstjórinn fyrrverandi William Fall, og nemur krafa hans hátt í fjórðungi allra launakrafna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×