Erlent

Norðmenn óttast vanskapaða risaþorska

Óli Tynes skrifar
Þorskarnir eru ekki fagrir ásýndum.
Þorskarnir eru ekki fagrir ásýndum. Mynd/Fiskeridirektoratet

Norskir fiskimenn eru óttaslegnir vegna vanskapaðra risaþorska sem hafa verið að koma í net þeirra í Lyngenfirði undan Tromsö.

Kjaftur þorskanna er afmyndaður þeir hafa stóran hnúð á hnakkanum og þeir eru óeðlilega feitir. Fiskimennirnir vilja rekja þetta til þorskeldisstöðvar sem er innarlega í firðinum.

Fiskistofa Noregs hefur málið til rannsóknar. Gunnar Trulssen svæðisstjóri stofnunarinnar í Norður-Noregi segir að margir vanskapaðir þorskar hafi veiðst í Lyngen í haust og Hafró leggi mikla áherslu á að finna orsökina.

Þorskarnir hafa verið sendir til rannsóknar og Terje van der Meeren rannsóknarstjóri segir að að minnsta kosti tveir þeirra beri merki um að þeir hafi verið klaktir út í kerjum og fóðraðir á smáu dýrasvifi sem einnig sé ræktað.

Framkvæmdastjóri þorskeldisstöðvarinnar er hinsvegar viss um að skrímslin komi ekki úr hans kvíum. Þeir sjái afar sjaldan vanskapaða fiska þegar þeir slátri fyrir markað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×