Stjórn De Beers, stærsta framleiðanda demanta í heiminum, hefur ákveðið að fara í hlutafjáraukningu upp á einn milljarð dollara, eða 122 milljarða íslenskra króna. Hluthafar hafa þegar samþykkt þetta.
De Beers á í miklum skuldavanda en talið er að skuldir þess nemi um 3,5 milljörðum dollara, eða 457 milljörðum íslenskra króna. Verð á demöntum hefur fallið á mörkuðum og á fyrri hluta ársins dróst hagnaður fyrirtækisins saman um 99 prósent.
Vegna erfiðra markaðsaðstæðna þurfti De Beers að loka demantanámum sínum í Suður-Afríku, Botswana og Kanada um tíma á fyrrihluta ársins.
Námufyrirtækið Anglo American á 45 prósenta hlut í De Beers, Oppenheimar-fjölskyldan í Suður-Afríku á 40 prósenta hlut og Botswana á 15 prósenta hlut. - th