Innlent

Samkynhneigð með fjögur gull fyrstu tvo dagana

Þau Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Jón Örvar Gestsson með gull og silfur. Mynd/Jón Þór Þorleifsson
Þau Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Jón Örvar Gestsson með gull og silfur. Mynd/Jón Þór Þorleifsson

„Ef ég á að segja alveg eins og er þá bjuggumst við allt eins við svona góðum árangri, því íslensku keppendurnir eru mjög sterkir," segir Jón Þór Þorleifsson, stjórnarmaður í Íþróttafélaginu Styrmi, sem þessa dagana tekur þátt í Outgames-leikunum í Kaupmannahöfn.

Fyrstu tveir keppnisdagar mótsins hafa skilað félögum Styrmis fernum gullverðlaunum og einum silfur­verðlaunum í sundi, auk þess sem knattspyrnulið félagsins er komið upp úr riðli sínum í mótinu. Outgames-leikarnir hafa verið nefndir Ólympíuleikar samkynhneigðs íþróttafólks. Í ár taka yfir 5.500 fulltrúar frá 95 löndum þátt í mótinu.

Að sögn Jóns Þórs ríkir góð stemning meðal íslensku keppendanna. „Opnunarhátíðin á laugardaginn, þar sem allir keppendurnir gengu eftir sýningarpalli, var rosaleg. Þá kom sér vel að hafa fylgst með sjónvarpsþáttunum „America's Next Top Model," þar sem slík list er kennd í þaula. Einnig kemur áhugi keppendanna á þáttunum „How to Look Good Naked" sér vel, því við erum svo fáklædd hérna í lauginni," segir Jón Þór, sem keppir fyrir sundlið Styrmis.

Leikarnir standa fram á laugar­dag. „Þeim lýkur með því að haldið verður upp á Gay Pride-daginn í Danmörku. Þeir voru að monta sig af því að það kæmu líklega 15.000 manns á hátíðina. Við hlógum nú bara að því, enda vön því að um 60.000 manns sæki hátíðina á Íslandi," segir Jón Þór Þorleifsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×