Viðskipti innlent

Marelhlutur keyptur með aflandskrónum

Eignarstýringarfélagið Columbia Wanger Asset Management (CWAM) útvegaði sér krónur á aflandsmarkaði til þess að kaupa 5,2% eignarhlut í Marel fyrr í vikunni. Áætla má að gengishagnaður CWAM af þessum sökum sé í kringum 200 milljónir kr.

Ljóst er að þessi kaup CWAM á aflandsmarkaðinum í vikunni eru sennilega ein helsta ástæða þess að gengi krónunnar styrktist töluvert þar í vikunni. Greiningardeild Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbankans fjölluðu bæði um málið í gærdag. Hjá þeim kom fram að gengi krónunnar á aflandsmarkaðinum hefði styrkst úr 210 krónum fyrir evruna og niður í 190 til 200 krónur.

CWAM festi kaup á samtals tæplega 32,2 milljónum hluta í Marel sem jafngildir 5,2% eignarhlut. Viðskiptin fara fram á genginu 59,0. Verðið var sum sé um 1,9 milljarður kr.

Ef CWAM hefði borgað fyrir hlutinn í evrum á gengi Seðlabankans væri kaupverðið um 10,5 milljónir evra. Með því að breyta kaupverðinu úr evrum, eða dollurum, og í krónur á aflandsmarkaðinum var hægt að fá 2,1 milljarð kr. fyrir þær m.v. að gengið væri 200 kr. fyrir evruna. Mismunurinn þarna á milli er hreinn hagnaður fyrir CWAM.

Hér má nefna að Hagfræðideild Landsbankans greindi frá því að viðskipti með krónur hefðu numið um 2 milljörðum kr. á dag, tvo daga í röð. Passar það við að CWAM hafi útvegað sér sínar krónur á öðrum af þessum dögum.

Það er líka athyglisvert í þessu sambandi að hagnaður CWAM í þessu tilviki er einnig hagnaður þjóðarbúsins í heild. Greining Íslandsbanka og Hagfræðideild Landsbankans sögðu báðar að styrking á gengi krónunnar á aflandsmarkaði væri af hinu góða.

„Ljóst að mikið hefur dregið úr ávinningi viðskipta með gjaldeyri fram hjá gjaldeyrishöftunum," sagði hagfræðideildin og „hinsvegar má draga þá ályktun af þróun krónunnar á aflandsmarkaði að líkur á verulegu gengisfalli við afnám gjaldeyrishafta hafi minnkað undanfarið," sagði greining Íslandsbanka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×