Erlent

Brown vill að hægt verði að reka þingmenn

Hugmyndir sem Gordon Brown kynnti í gær þykja sérhannaðar til að auka vinsældir Verkamannaflokksins í kosningum í vor.Nordicphotos/AFP
Hugmyndir sem Gordon Brown kynnti í gær þykja sérhannaðar til að auka vinsældir Verkamannaflokksins í kosningum í vor.Nordicphotos/AFP

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands og formaður Verkamannaflokksins, vill að kjósendur geti rekið þingmenn sem verða uppvísir að því að brjóta lög. Þetta kom fram í ræðu hans á árlegum landsfundi Verkamannaflokksins í Brighton á þriðjudag.

Fjölmargir þingmenn urðu nýverið uppvísir að því að láta þingið greiða ýmsan kostnað fyrir sig sem ekki bar að greiða, og skók hneyksli vegna þessa þingið í sumar.

Brown reynir nú að snúa vörn í sókn fyrir kosningar sem haldnar verða í Bretlandi næsta vor. Kannanir benda til þess að Verkamannaflokkurinn muni missa meirihluta sinn í kosningunum. Flokkurinn hefur verið við völd frá árinu 1997.

Fréttaskýrendur sögðu greinilegt að tillögur Browns væru sérhannaðar til að freista þess að auka vinsældir hans og Verkamannaflokksins. Það mætti til dæmis sjá í tillögum um að hægt yrði að reka þingmenn sem verðiuppvísir af því að brjóta lög, sem og hugmyndum um að taka hart á málum ungra glæpamanna.

Þá sagðist Brown vilja stöðva áform um útgáfu umdeildra persónuskilríkja, og hækka eftirlaun. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×