Viðskipti innlent

Seðlabankinn snupraður fyrir frestun á birtingum

„Í ljósi þess hversu mjög kastljós beinist að Íslandi og íslenskum hagstærðum, og hversu óvissa er mikil um þróun ýmissa stærða í hagkerfinu væri heppilegt ef Seðlabankinn stæði við útgáfuáætlun sína eins og kostur er."

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um tilkynningu Seðlabankans frá í gær um frestun á birtingu á uppgjöri á greiðslujöfnuði við útlönd og erlendum skuldum fyrir fyrsta ársfjórðung 2009 líkt og áætlað var. Bankinn er að vinna í að ljúka uppgjörinu og áformar hann að birta tölurnar 4. júní nk.

„Nokkur brögð hafa verið að því undanfarið að Seðlabankinn fresti birtingu hagtalna. Til að mynda liggja ekki enn fyrir tölur yfir efnahag lífeyrissjóða í apríllok," segir í Morgunkorninu.

„Bankinn hefur heldur ekki birt yfirlit yfir bankakerfið frá septemberlokum í fyrra, og því erfitt að henda reiður á þróun mikilvægra peningalegra stærða á borð við útlán og peningamagn í umferð. Þótt tafir á tilurð efnahagsreiknings nýju viðskiptabankanna skýri það að ekki sé unnt að birta hluta þeirra talna verður að teljast bagalegt að engar tölur séu haldbærar fyrir svo langt tímabil."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×