Viðskipti innlent

Áætlar að Landsvirkjun vangreiði borginni hátt í 200 milljónir

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar
Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar Mynd/Haraldur Jónasson
Reykjavíkurborg átti 44,53% hlut í Landsvirkjun fram til 1. janúar 2007 en þá keypti ríkið hlutinn af Reykjavíkurborg. Samkvæmt sölusamningnum ber Reykjavíkurborg enn ábyrgð á 44,53% skulda Landsvirkjunar sem stofnað var til fyrir sölu hlutarins, en meginþorri skulda Landsvirkjunar eru frá þeim tíma.

Af samlestri ársreikninga Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hlutur Reykjavíkurborgar í ábyrgðargjaldi fyrirtækisins sé of lítill og jafnframt kunna að vera rök fyrir því að ábyrgðargjaldið sé óeðlilega lágt.

Þetta segir Sigrún Elsa Smáradóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar 2008 fékk Reykjavíkurborg greiddar 208 milljónir króna í ábyrgðargjald vegna ábyrgða borgarinnar á lánum Landsvirkjunar.

Samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar greiddi fyrirtækið ábyrgðargjald sem nemur rétt tæpum sjö milljónum Bandaríkjadollara en það samsvarar 845 milljónum króna miðað við gengi krónu um síðustu áramót. Þannig virðist hlutur Reykjavíkurborgar í ábyrgðargjaldsgreiðslunum vera innan við fjórðungur af greiddu ábyrgðargjaldi meðan hlutfallsleg ábyrgð borgarinnar er mun meiri.

Miðað við 44,53% hlut, ætti Reykjavíkurborg þvi að fá greiddar í kringum 370 milljónir króna en ekki ofangreindar 208 milljónir.

„Þar sem meginþorri skulda Landsvikrjunar er tilkominn fyrir sölu Reykjavíkurborgar á hlut sínum til ríkisins má áætla að Landsvirkjun sé að vangreiða borginni hátt á annað hundruð milljónir króna," segir Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt fram fyrirspurnir til viðbótar fyrri fyrirspurnum í borgarráði vegna ábyrgða Reykjavíkurborgar fyrir Landsvirkjun. Samfylkingarmenn spyrja meðal annars hvernig ábyrgðargjaldið sem borgin fær greitt kemur heim og saman við ábyrgðir borgarinnar.






Tengdar fréttir

Eigendaábyrgð Landsvirkjunar og OR stenst ekki EES-samning

Að mati Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er hin ótakmarkaða ábyrgð sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur (OR)njóta, hjá eigendum fyrirtækjanna, ekki að fullu í samræmi við ákvæði EES samningsins um ríkisaðstoð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×