Viðskipti innlent

Ríkið sparar 100 milljarða á samningum við skilanefndir

Ríkið mun spara um 100 milljarða kr. á samningum sínum við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings. Upphaflega stofnaði ríkissjóður skuldabréfaflokk upp á 30 milljarða kr. til að standa straum af kostnaði við endurreisn stóru bankanna þriggja en nú er ljóst að sá kostnaður verður mun minni.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni í framhaldi af því að ákveðið hefur verið að kröfuhafar eignist 87% hlutafjár í Arion banka og að afgangurinn haldist í eigu ríkissjóðs. Í samkomulaginu felst að skilanefnd Kaupþings fyrir hönd kröfuhafa sinna leggur fram 66 milljarða kr. eiginfjárframlag til Arion banka í stað ríkisins og eignast þar með 87% hlutafjár bankans.

Við upphaflega endurfjármögnun Arion bankans (þá Nýja Kaupþings) skuldbatt íslenska ríkið sig til að leggja bankanum til 72 milljarða kr. í eigið fé, en vegna ofangreinds samkomulags mun ríkið leggja bankanum til 8 miljarða kr. í eigið fé auk 25 milljarða kr. í formi víkjandi láns. Samkvæmt tilkynningu mun eiginfjárþáttur A því vera 12% en að teknu tilliti til víkjandi lánsins nemur eiginfjárgrunnur bankans 16%.



Ríkissjóður stofnaði nýjan skuldabréfaflokk, RIKH 18 1009, til þess að standa straum af endurfjármögnun nýju bankanna þriggja. Bréfið er vaxtagreiðslubréf með breytilegum vöxtum sem breytast með vöxtum á viðskiptareikningum innlánsstofnana í Seðlabankanum. Þessir vextir standa nú í 9% og munu fylgja þróun stýrivaxta.

Heildarfjárhæð útgáfunnar var upphaflega 300 milljarðar kr. þar sem hún átti að standa undir endurfjármögnun þriggja banka, Íslandsbanka, Arion banka (áður Nýja Kaupþings) og Landsbankans.

Við samkomulagið skilar Arion ríkinu jafnvirði 66 milljarða kr. í formi RIKH 18 og fær samsvarandi upphæð frá skilanefndinni. Fjárhagsstaða ríkissjóðs mun því batna sem þessu nemur en þar fyrir utan minnkaði þörf á eiginfjárframlagi um 37 milljarða kr. þegar ákveðið var að kröfuhafar Glitnis myndu eignast 95% í Íslandsbanka.

Með því að bankarnir tveir komist að mestu í eigu kröfuhafa sparar ríkissjóður því rúmlega 100 milljarða kr. á árinu. Við ríkjandi aðstæður í ríkisfjármálum og yfirvofandi skattahækkanir eru þessar niðurstöður því jákvæðar fyrir ríkissjóð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×