Viðskipti innlent

Frá áramótum hefur FME staðið að 50 vettvangsrannsóknum

Frá upphafi árs 2008 til dagsins í dag hefur Fjármálaeftirlitið (FME) framkvæmt 50 vettvangsrannsóknir hjá eftirlitsskyldum aðilum, sem eru í heild 119 talsins á Íslandi í dag.

Þetta kom fram í máli Gunnars Þ. Andersen forstjóra FME á fundi SSF í gærmorgun. Gunnar sagði ennfremur að í kjölfar hruns bankanna hefði álag á starfsfólk FME aukist gríðarlega og sem dæmi hafi heildar vinnustundir starfsmanna í október verið 125% fleiri en í upphafi árs.

Í rannsóknum í tengslum við hrunið hafi m.a. sérstaklega verið horft til millifærslu fjármuna milli landa, breytinga á skilmálum lána, verðbréfa og afleiða, tilfærslna eigna fjárfestingarsjóða og tilfærslna annarra rekstrareigna.

FME sé nú komið með í hendurnar ítarlegar skýrslur í þessum efnum hvað varðar stærstu bankana og eigi von á sambærilegum skýrslum um mitt ár hvað varðar þrjú önnur fjármálafyrirtæki. Innihald fyrrgreindra skýrslna hafi veitt FME megnið af upplýsingunum sem nýtast til frekari rannsókna tengdum bankahruninu.

Endanlegt markmið sé að koma málum sem varða möguleg afbrot í ferli hjá sérstökum saksóknara. Tíu slík mál hafi nú þegar verið afhent honum og fimm til viðbótar væntanleg í náinni framtíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×