Viðskipti innlent

Þróun á markaði bendir til væntinga um vaxtalækkanir

Viðskipti á skuldabréfamarkaði hafa verið lífleg í þessari viku. Í þeim hefur ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkað töluvert sem gæti bent til þess að markaðsaðilar eigi von á meiri lækkun vaxta hér á landi á næstunni en áður var talið.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir einnig að ekki sé þó hægt að útiloka að aukin eftirspurn af öðrum ástæðum valdi lægri ávöxtunarkröfu fjárfesta á ríkisskuldabréf.

„Ávöxtunarkrafa hækkaði nokkuð eftir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gaf sterklega til kynna að vextir myndu ekki lækka fyrr en gengi krónunnar yrði stöðugra," segir í Hagsjánni.

„Hins vegar tók krafan að lækka í kjölfar þess að samkomulag ríkisstjórnarinnar um endurfjármögnun bankanna var kynnt síðastliðinn mánudag. Auk þess má vera að markaðsaðilar telji nú meiri líkur en minni á að Icesave samningurinn komist í gegnum meðferð Alþingis og að það gæti mögulega liðkað fyrir frekari stýrivaxtalækkunum Seðlabankans."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×