Erlent

Fólki fleygt lifandi út úr flugvélum

Óli Tynes skrifar
Julio Alberto Poch.
Julio Alberto Poch.

Fyrrverandi argentinskur herflugmaður sem nú er hollenskur ríkisborgari kom fyrir rétt á Spáni í dag. Hann er grunaður um þáttöku í dauðaflugferðunum svokölluðu í Argentínu.

Þær voru farnar voru á sjönda og áttunda áratugnum til þess að losna við andstæðinga herforingjastjórnarinnar.

Fleygt lifandi fyrir borð

Fólkinu var gefið deyfilyf svo það gat ekki veitt mótspyrnu. Svo var því hlaðið um borð í herflutningavélar sem flugu með það langt út á Atlantshafið. Þar var því fleygt lifandi fyrir borð.

Talið er að Argentinska herforingjastjórnin hafi látið myrða tugþúsundir manna með þessum eða öðrum álíka geðslegum aðferðum á átta ára valdatíma sínum.

Flutti til Hollands

Julio Alberto Poch sem nú er 57 ára gamall var flugmaður í argentinska sjóhernum. Hann flutti frá Argentinu til Hollands eftir að herforingjastjórnin féll.

Þar gerðist hann flugmaður hjá hollenska lággjaldaflugfélaginu Transavia. Rannsókn á morðunum í Argentínu hefur staðið yfir síðan herforingjastjórnin féll. Í mars síðastliðinn gáfu stjórnvöld út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Poch.

Krafist framsals

Ekki er vitað hversvegna hollenska lögreglan handtók hann ekki, en það gerði sú spænska þegar hann lenti flugvél Transavia í Valencia í september síðastliðnum.

Poch var svo leiddur fyrir dómara í Madrid í dag þar sem framsalsbeiðni argentinskra yfirvalda verður til skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×