Innlent

Svínaflensutilfellum fjölgar enn

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir MYND/GVA
Staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) voru alls 1.269 í morgun í 22 ríkjum í heiminum samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar ESB en staðfestum tilfellum fjölgar enn. Þannig voru þrettán ný tilfelli staðfest á Spáni á síðastliðnum sólarhring og utan Evrópu fjölgaði staðfestum tilfellum einkum í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada. Engin ný, alvarleg tilfelli hafa verið tilkynnt nema í Mexíkó. Dauðsföll sem rakin eru til veikinnar eru 27 þar af 26 í Mexíkó og eitt í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sóttvarnarlækni og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Þá segir að meðalaldur þeirra sem greinst hafa með inflúensuna í Bandaríkjunum er 16 ár og 62% tilfella þar í landi varða fólk innan 18 ára aldurs. Langflest staðfest og óstaðfest tilvik inflúensunnar á Evrópska efnahagssvæðinu frá 27. apríl til 5. maí varða fólk á aldrinum 20-29 ára. Þetta sést í nýjum upplýsingum Sóttvarnastofnunar ESB:

Engin tilfelli hafa verið greind hér á landi og enginn verið lagður inn á Landspítala með alvarleg, inflúensulík einkenni. Inflúensufaraldrinum frá í vetur, sem náði hámarki í febrúar síðastliðinum, er ekki alveg lokið. Þannig hafa fimm tilfelli af inflúensu B greinst á undanförnum dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×