Innlent

Kemur í veg fyrir aðra óráðsíu

gylfi Magnússon
gylfi Magnússon

„Við ætlum ekki að breyta þeirri grundvallarhugmynd að einkahlutafélög eru með takmarkaðar ábyrgðir. Það er grundvöllur hlutafélagaformsins,“ segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Áætlað er að skuldir einkahlutafélaga nemi hátt í tvö þúsund milljörðum króna. Haft hefur verið eftir Gylfa að féð sé að mestum hluta glatað þar sem litlar sem engar eignir eru á móti skuldum.

Ríkisstjórnin undirbýr umfangs­miklar breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Gylfi nefndi nokkrar þeirra á fundi Íslandsbanka um mikil­vægi fjárfesta í endurreisn hagkerfisins í gær.

Þar á meðal eru reglur um æðstu stjórnendur fjármála­fyrirtækja, hertar reglur um lán með veði í hlutabréfunum sjálfum, lán til tengdra aðila og aukin ábyrgð endurskoðenda.

Í þeim stjórnarfrumvörpum sem þegar eru komin til Alþingis er fjallað um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja og þak á eignarhlut tengdra aðila í skráðu félagi.

Þá er stefnt að því að leggja fyrir þingið á næstunni stjórnarfrumvarp sem þrengir svigrúm fjármálafyrirtækja til lánveitinga, svo sem veitingu á lánum sem nýta á til kaupa á hlutabréfum sömu fjármálafyrirtækja. Þá er stefnt að því að leggja fyrir þingið frumvarp um verndun minnihluta í hlutafélögum og einkahlutafélögum.

„Þetta eru viðbrögð við því sem fór úrskeiðis á uppgangstímunum og á að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig,“ segir Gylfi. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×