Viðskipti innlent

Árið sem Ísland var gert upp

Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara gerðu gögn upptæk í höfuðstöðvum Milestone á árinu.
Starfsmenn embættis sérstaks saksóknara gerðu gögn upptæk í höfuðstöðvum Milestone á árinu.
Áhrifa af ofhitnun hagkerfisins síðustu ár og hruninu í fyrra gætti enn á árinu sem er að líða. Í raun má segja að allt hafi verið á suðupunkti. Janúar„Við höfum úr háum söðli að detta en ekki Simbabve,“ sagði Gylfi Magnússon, þá dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, um umfjöllun vikuritsins Economist um hagvöxt á heimsvísu í fyrstu viku ársins. Ísland vermdi botnsætið enda reiknað með tíu prósenta samdrætti hér í kjölfar bankahrunsins. Væntingarnar voru tvöfalt verri en í Afríkuríkinu Simbabve. Gylfi benti á að Simbabve hafi um árabil glímt við efnahagsþrengingar, áttatíu prósenta atvinnuleysi og hungursneyð. Því sé ekki að skipta hér.

Seðlabankinn flutti átján prósenta stýrivexti með sér inn í nýtt ár og vildu margir koma þeim niður. „Ég hafna því að það sé nokkur ágreiningur innan Seðlabankans í peningamálum,“ sagði Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri um ósamræmi á milli bankastjórnar Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Bankastjórnin vildi lækka stýrivexti. Fréttablaðið sagði hagfræðisvið bankans og AGS því mótfallið.

Fleira var á suðupunkti en hagkerfið. Ríkisstjórnin var í frjálsu falli og sneru stuðningsmenn við henni baki.

„Ég hef aldrei verið í vafa um að ég ber hluta af hinni pólitísku ábyrgð og hef alltaf ætlað að axla hana,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra er hann sagði óvænt af sér embætti undir lok mánaðar. Á sama tíma vék hann forstjóra Fjármálaeftirlitsins frá ásamt stjórn þess. Svo féll ríkisstjórnin. Jóhanna Sigurðardóttir tók við stól forsætisráðherra af Geir Haarde í nafni Samfylkingar og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, tók við fjármálaráðuneytinu.

Gæfan virtist almennt hafa snúið baki við landinu, ekki síst heimilum og fyrirtækjum. febrúar„Brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar er að endurreisa traust á fjármálakerfi landsins. Grundvöllur þess er að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans,“ sagði Jóhanna og sendi bankastjórunum þremur í Seðlabankanum bréf þar sem farið var fram á að þeir færu samstundis frá. Hún lagði sömuleiðis fram stjórnarfrumvarp, sem gerði ráð fyrir einum seðlabankastjóra í stað þriggja. Sá skyldi hafa meistarapróf í hagfræði. Sjálfstæðismenn urðu ævareiðir og sögðu frumvarpið sniðið til þess eins að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum.

Ingimundur Friðriksson var fyrstur til að hlýða kalli ráðherra en þeir Davíð og Eiríkur Guðnason neituðu að hreyfa sig fyrr en frumvarpið yrði að lögum.

Um svipað leyti settu skilanefndir Glitnis og Landsbankans Baugi stólinn fyrir dyrnar. Lán til félagsins voru gjaldfelld og gengið að eignum í Bretlandi.

Hreinsunarstarf var hafið og mælti sænski bankasérfræðingurinn Mats Josefsson með því að „eitraðar eignir nýju bankanna“ yrðu færðar í sérstakt eignaumsýslufélag. Þar á meðal voru helstu fjárfestingafélög landsins, fyrirtæki í byggingariðnaði og stór bílaumboð.

Þegar halla tók á mánuðinn sáust fyrstu merki um uppstokkun á bankakerfinu og hugsanlega aðkomu erlendra kröfuhafa að nýju bönkunum.

Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á Seðlabankanum varð loks að lögum í lok mánaðar og kvöddu þeir Davíð og Eiríkur samstarfsfólk sitt. Norski hagfræðingurinn Svein Harald Øygard tók við starfi þeirra. marsEndurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins setti út óvænt spil þegar hún sagði í drögum að ályktun farsælast að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um gjaldeyrismál enda erfitt að byggja upp efnahagslíf að nýju með ónýta krónu. Höfundur var Ólafur Ísleifsson hagfræðingur sem jafnframt á sæti í Skuggabankastjórn Markaðarins. Drögin skrifaði hann að beiðni flokksins. Hugmyndirnar urðu að engu enda samræmdust þær ekki stefnu flokksins.

Þrátt fyrir væntingar Seðlabankans til að styrkja krónuna með belti og axlaböndum í formi gjaldeyrishafta nýttu fjárfestar allar þær glufur sem þeir komu auga á til að fara fram hjá þeim og keyptu krónur á aflandsmörkuðum. Uppskeran var ríkulega enda tugprósenta munur á gengi evrunnar hér og á mörkuðum ytra.

Þá féll Straumur í hendur skilanefndar þegar hann gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þetta var fyrsti bankinn sem féll í hendur ríkisins á árinu. Erlendir fjölmiðlar sögðu hættu á þjóðargjaldþroti Íslands. Staðan veiktist hratt og atvinnuleysi jókst stöðugt. Þá fóru fleiri fyrirtæki á hliðina, flest í byggingaiðnaði. Seðlabankinn sagði átján prósent heimila landsins með neikvæða eiginfjárstöðu. Forsætisráðherra sagði hugsanlegt að afskrifa stóran hluta skulda þeirra verst settu.

Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyris­sjóðsins, var vongóður um að horfur í efnahagsmálum gætu batnað undir lok árs.

Horfurnar voru ekki betri en svo að Byr greindi frá 29 milljarða króna tapi. „Þetta eru mikil vonbrigði,“ sagði Ragnar Z. Guðjónsson sparisjóðsstjóri og biðlaði til ríkisins eftir eiginfjárframlagi. Fimm sparisjóðir áttu eftir að bætast í hópinn.

Sparisjóðabankinn og Spron komust ekki niður á hnén. Áður en til þess kom tók FME bankana yfir og heyra þeir nú sögunni til. aprílDecode, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, ein af vonarstjörnum íslenskra tæknifyrirtækja, greindi frá því í uppgjöri sínu að fjármunir þess væru að brenna upp.

Seðlabankinn leitaði allra ráða til að vinda ofan af jöklabréfastaflanum svokallaða, eignum erlendra aðila í krónum sem gjaldeyrishöftin áttu að halda föstum í landinu. Ein hugmyndanna var að gefa erlendu fjárfestunum færi á að fjárfesta í íslenskum skuldabréfum útgefnum af íslenskum útflutningsfyrirtækjum, sem myndu fá krónur í kassann en greiða til baka í erlendri mynt. Þegar á reyndi var ekki áhugi á slíku.

Fyrsta verk nýja seðlabankastjórans fólst í lækkun stýrivaxta.

Þá var punktur settur aftan við sögu Spron þegar MP Banki keypti útibú bankans og Byr tók yfir greiðslumiðlun hans.

Árið verður Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi formanni bankaráðs Landsbankans og stærsta hluthafa Landsbankans, minnisstætt. Björgólfur, sem styrkti útgáfur tveggja bóka um Hafskipsmálið og horfði til þess að fá gjaldþrot skipaflutningafélagsins tekið upp að nýju, lenti í erfiðleikum með greiðslu á láni sem hann og sonur hans, Björgólfur Thor, höfðu fengið hjá Búnaðarbankanum á sínum tíma í tengslum við kaup á Landsbankanum árið 2002. Lánið stóð í fimm milljörðum króna og reyndu þeir að fá hluta skuldarinnar felldan niður gegn innborgun. Það tókst ekki. Í ljós kom að félag feðganna hafði fengið meirihluta bankakaupanna að láni. maíMaímánuður byrjaði ekki vel hjá Magnúsi Þorsteinssyni, þriðja hjólinu undir Samsonarvagninum, sem keypti Landsbankann. Magnús hafði farið mikinn hjá Eimskipafélaginu og í Icelandic Group, félögum sem sömuleiðis tengdust Björgólfi. Hann og Magnús áttu það sameiginlegt að standa ekki undir þeim skuldaklafa sem þeir höfðu hlaðið utan á sig og var Magnús úrskurðaður gjaldþrota. Hann flutti til Rússlands um svipað leyti og hefur verið þar síðan.

Þá flaug rúmur fjörutíu prósenta eignahlutur bræðrafélaga Engeyinganna Benedikts og Einars Sveinssona og Karls og Steingríms Wernerssona í Icelandair Group inn í Íslandsbanka. „Ég vissi að þetta myndi skella á, gekk frá reikningunum í möppur og lét klippa á kortið,“ sagði Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Máttar og stjórnarformaður Icelandair Group. júníSumarið er alla jafnan rólegasti tími ársins. Stýrivextir fóru niður í tólf prósent og sagði peningastefnunefnd Seðlabankans stærri skref ekki stigin í bili enda sendinefnd AGS mótfallin vaxtalækkun sem gæti ógnað stöðugleika krónunnar.

Þá kom í ljós að fleiri en Magnús Þorsteinsson höfðu sankað að sér lánum. Af 730 milljarða króna útlánasafni hjá útibúi Landsbankans í Lundúnum í Bretlandi námu lán til íslenskra fyrirtækja þar 130 milljörðum króna á þáverandi gengi.

Hvort um tilviljun var að ræða eður ei var efst á lista lánabókarinnar Novator Pharma, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar Guðmundssonar. Skuld þessa eina félags við bankann nam fjörutíu milljörðum króna. Bent var á síðar að þrátt fyrir tengslin var Björgólfur Thor ekki listaður sem tengdur aðili í ársreikningum bankans. Skipti engu þótt hann ætti stærsta hlutinn í bankanum ásamt föður sínum.

Þá var tekist hart á um Icesave-samkomulagið, arfleifð gamla Landsbankans, innan veggja Alþingis. júlíStarfsmenn Ólafs Haukssonar, sérstaks saksóknara, fóru í eina af viðamestu húsleitunum í mánuðinum, nú hjá félögum tengdum þeim Werners-bræðrum. Þar á meðal var húsleit gerð í húsakynnum Aska Capital og Sjóvár og á heimilum forstjóra beggja fyrirtækja.

Ástæðan fyrir húsleitunum var grunur um fjölda brota. Grunur var um að félagið hefði fjárfest úr bótasjóði í skrifstofubyggingum í Belgíu og París og höfuðstöðum bæversks banka í Þýskalandi.

Sjóvá var á leið í þrot og ákvað ríkissjóður því að leggja tryggingafélaginu til tólf milljarða króna.

Forstjóraskipti urðu hjá Sjóvá og tók Hörður Arnarson, áður forstjóri Marel, við stýrinu um nokkurra mánaða skeið.

Fyrsta erlenda fjárfestingin skilaði sér hingað í mánuðinum þegar kanadíska félagið Magma Energy keypti 10,8 prósenta hlut í HS Orku af Geysi Green Energy (GGE).

Þrátt fyrir allt gekk erfiðlega að styrkja krónuna. Horft var til þess að lánveitingar frá AGS og norrænu nágrannalöndunum yrðu traust bakland. Lánin strönduðu á Icesave-samkomulaginu, sem dróst von úr viti. Gylfi Magnússon útilokaði ekki að leita eftir stuðningi hjá evrópska seðlabankanum. ágúst„Ég horfi fram á nær algeran tekjumissi,“ sagði Björgólfur Guðmundsson, eitt sinn auðmaður, eftir að ákveðinn endapunktur var settur aftan við hrakfarasögu hann í byrjun ágúst þegar hann var úrskurðaður gjaldþrota.

Björgólfur, sem hafði vafið skuldum utan á sig í góðærinu, var í persónulegri ábyrgð fyrir 96 milljörðum króna. Þar á meðal var um sex milljarða króna skuld við Kaupþing sem Samsonar-þríeykið fékk að láni vegna kaupa á Landsbankanum á sínum tíma. Skuldin fór í innheimtu í mánuðinum.

Þá láku upplýsingar úr lánabók gamla Kaupþings á Netið við dræmar undirtektir bæði bankans og viðskiptavina. Í ljós kom að fimm stærstu lántakendur bankans voru ábyrgir fyrir tæpum þúsund milljörðum króna.

Umsvifamesti skuldunauturinn var Exista, stærsti hluthafi gamla Kaupþings og tengd félög með 330 millarða króna skuld á bakinu. Aðrir stórir skuldunautar voru breski fasteignajöfurinn Robert Tchenguiz, Skúli Þorvaldsson, Bakkabræður, félög tengd Ólafi Ólafssyni, einum af stærstu eigendum Kaupþings, og Gaumur, eignarhaldsfélag Haga og Baugs. september„Til lengri tíma litið verður staða Íslands best innan Evrópusambandsins,“ sagði Robert Ford, aðstoðarsviðsstjóri landrannsókna á hagfræðideild Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) þegar hann kynnti niðurstöður skýrslu um leiðir til að koma á stöðugleika hér. Niðurstöðurnar voru þær að eini góði kosturinn sem Ísland hefði um að velja væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Sísti kosturinn væri sá að taka upp fastgengisstefnu á nýjan leik.

Þá var kröfuhöfum gamla Kaupþings boðið að taka 87 prósenta hlut í bankanum á móti ríkinu. októberFjármálaráðuneytið var á jákvæðari nótum í október þrátt fyrir hrikalega skuldabyrði og endalausar tafir á lánum frá AGS og nágrannaþjóðunum. Ráðuneytið taldi nú að samdráttur í landsframleiðslu gæti orðið 8,4 prósent í ár en á bilinu 1,9 prósent á næsta ári, 2,9 prósent tefjist framkvæmdir vegna álvers í Helguvík. Árið 2011 er svo reiknað með tæplega þriggja prósenta hagvexti.

Þrátt fyrir væntingar frestuðust lánafyrirgreiðslur frá AGS von úr viti. Þótt fulltrúar sjóðsins segðu það ekki beinum orðum strandaði það á Icesave-málinu. Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þór Saari og Lilja Mósesdóttir vildu öll slíta samstarfi við AGS. Það var sosum engin nýlunda enda höfðu þau verið andsnúin sjóðnum frá fyrsta degi. Nóvember„Þeir sem stjórna svona fyrirtæki bera ábyrgð á því hvaða leið er farin. Ég sá enga aðra leið,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Decode, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, eftir að fyrirtækið óskaði eftir greiðslustöðvun. Fyrirtækið hafði glímt við þrönga fjárhagsstöðu og sótt sér rekstrarfé á yfirdráttarvöxtum um nokkurra mánaða skeið. Það hafði aldrei skilað hagnaði. Kári taldi stutt í slíkt enda viðskiptamódelið annað eftir breytinguna.

Þetta var ekki eina áfallið því alþjóðlega matsfyrirtækið Moody‘s lækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins um tvo flokka og var það einum flokki ofan við ruslbréfaflokk.

Undir lok mánaðar gerðu starfsmenn sérstaks saksóknara húsleit hjá MP Banka og Byr í tengslum við rannsókn á sölu stofnfjárbréfa í sparisjóðnum í kringum hrunið í fyrra. Í kjölfarið ákvað sparisjóðsstjórinn Ragnar Z. Guðjónsson, að láta tímabundið af störfum. DesemberPeningastefnunefnd Seðlabankans gaf landsmönnum jólapakka sem þeir höfðu lengi beðið eftir. Stýrivextir voru lækkaðir um eitt prósentustig niður í tíu prósent og innlánsvextir bankans um hálft prósentustig í 8,5 prósent á aukavaxtaákvörðunarfundi bankans. Rökin voru meðal annars þau að gengi krónunnar hafði haldist stöðugt þótt hátt væri. Forsvarsmenn bankans sögðu gengið geta haldist veikt lengi, jafnvel gæti tekið ár eða áratugi fyrir krónuna að ná jafnvægisgengi.

Skuggabankastjórn Markaðarins sagði niðurstöðuna ekki koma á óvart en taldi vaxtalækkunarferli í farvatninu. Gangi þær væntingar eftir má gera ráð fyrir að þeir Úlfar Eysteinsson og Tómas Tómasson, löngum kenndur við Tommahamborgara, leggist undir hnífinn og láti skerða skegg sitt.

Þessu til viðbótar bárust aðrar gleðifregnir um miðjan jólamánuðinn: þjóðin myndi eignast 87 prósenta hlut í Landsbankanum. Þar með var endurreisn gömlu stóru viðskiptabankanna lokið. Aðeins sparisjóðirnir, sem biðu á gjörgæslunni, voru eftir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×