Viðskipti innlent

Íslendingar svartsýnir og kvíða vetrinum

Tiltrú Íslendinga á efnahagsaðstæðum og atvinnumálum lands og þjóðar er ekki mikil um þessar mundir. Hún hefur einungis einu sinni áður verið minni, í janúar síðastliðnum, samkvæmt væntingavísitölu Capacent Gallup fyrir júlí mánuð. Landsmenn búast við að komandi vetur verði erfiður. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag.

Vísitalan mældist 20,9 stig og lækkaði um 21% frá fyrri mánuði. Væntingavísitalan tekur gildi á bilinu 0-200 og táknar gildið 100 að jafnmargir svarendur séu jákvæðir og neikvæðir. Núverandi gildi er því afar lágt og tjáir ríka neikvæðni í landanum.

Væntingar til sex mánaða hafa aldrei mælst lægri en vísitalan lækkuðu um 22% milli mánaða. Könnunin var gerð í byrjun júlí og benda niðurstöður til þess að landsmenn búist við að komandi vetur verði erfiður.

Karlar jákvæðari en konur - menntun skiptir máli

Karlar mælast töluvert jákvæðari en konur í könnuninni. Þeir hafa raunar ávallt mælst jákvæðari í væntingavísitölunni fyrir utan eitt skipti í september 2007. Að þessu sinni er það áhugavert í ljósi þess að fleiri karlar en konur eru atvinnulausir þar sem niðursveiflan hefur komið verr niður á hefðbundnum karlastéttum, svo sem byggingastarfsemi.

Kannanir hafa sýnt að konur stjórna útgjöldum heimilanna í mun meiri mæli en karlar og því kann útskýringin að vera að þær finni betur fyrir því þegar kreppir að.

Mikill munur sést jafnframt á tiltrú fólks eftir menntun þess. Þeir sem eingöngu hafa lokið grunnskólaprófi, hafa afar lágar væntingar og mælist vísitalan einungis 5,5 stig fyrir þann flokk. Að vísu dragast væntingar saman hjá öllum menntunarstigum fyrir utan þá sem lokið hafa grunnskólaprófi auk viðbótarmenntunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×