Viðskipti innlent

Fagnar því ef fjárfestar hafa áhuga á hafnarsvæðunum

Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að hann fagni því ef fjárfestar hafi áhuga á hafnarsvæðunum og vilji nýta sér það sem svæðin hafi upp á að bjóða en þau eru í Reykjavík, á Grundartanga, á Akranesi og í Borgarnesi.

Hann vísar alfarið á bug að um einhverja „spillingu" sé að ræða í tengslum við afgreiðslu stjórnar Faxaflóahafna hafi verið að ræða þegar stjórnin ákvað að ræða fyrst við erlenda hótelkeðju, sem ABZ-A er í forsvari fyrir, um byggingu á 120 herbergja hóteli á svokölluðum Mýrargötureit við Ægisgarð eins og gefið er í skyn í tilkynningu frá fjárfestum.is sem greint er frá hér á síðunni.

Gísli segir að þegar ABZ-A lýsti yfir áhuga sínum á að fá umrædda lóð undir hótelið í desember s.l. hafði nákvæmlega enginn annar áhuga á því að gera nokkuð við lóðina. Og í ljósi ástandsins í efnahagsmálum hafi hafnarstjórn litið erindið mjög jákvæðum augum enda um erlenda fjárfestingu að ræða.

„Á þeim tíma sem erindið barst var það afgreitt jákvætt í stjórninni með þeim sjálfsagða fyrirvara að umsagnar væri leitað hjá skipulagsráði borgarinnar," segir Gísli. „Þessi afstaða er svo ítrekuð á fundi stjórnarinnar nú með þeirri breytingu að fyrst verði rætt við ABZ-A um lóðina enda þeir eini aðilinn sem lýst hefur áhuga á henni."

Gísli segir að það hefði verið talið skynsamlegt af hafnarstjórninni að ræða við ABZ-A á sínum tíma meðan að annað lá ekki fyrir um nýtingu á lóðinni.

Hér má sjá upphaflegu fréttina af málinu sem birtist á visir.is þann 15. desember s.l.: https://www.visir.is/article/200816669436

Og hægt er að sjá afgreiðslu hafnarstjórnar á síðunni undir fyrirsögninni: „Bókanir á víxl í hafnarstjórn vegna hótelbyggingar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×