Skoðun

Fyrirtæki virði mannréttindi

Bryndís Bjarnadóttir skrifar
Sú tíð er liðin að ríki séu allsráðandi á alþjóðavettvangi. Hnattvæðingin hefur að miklu leyti fært valdið frá ríkjum til alþjóðastofnana og stórfyrirtækja sem að stórum hluta stýra hagkerfi veraldar. Í dag eru fjármálaumsvif margra stórfyrirtækja jafnvel meiri en meðalstórra þjóðríkja og í skjóli áhrifa sinna njóta þau því miður oft refsileysis á alþjóðavettvangi. En öllum áhrifum fylgir ábyrgð og alþjóðafyrirtækjum er ekki síður skylt að virða mannréttindi í starfsemi sinni en ríkjum. Mannréttindasamtök beina því ekki lengur baráttu sinni einvörðungu að ríkisvaldinu heldur í síauknum mæli að alþjóðafyrirtækjum og stofnunum. Heilsusamlegt umhverfi og öruggt húsaskjól

Athafnir fyrirtækja geta vissulega haft jákvæð áhrif á líf einstaklinga, til dæmis með aukinni atvinnusköpun þar sem allir þættir starfsemi og reksturs taka mið af viðurkenndum mannréttindum. En sum fyrirtæki grafa undan samfélögum og réttindum einstaklinga, beint eða óbeint. Annað hvort vegna skammsýni eða vegna skeytingarleysis.

Þar sem hörð samkeppni alþjóðlegra fyrirtækja ríkir um auðlindir eru samfélög víða grátt leikin.

Olíustarfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts í Nígeríu er eitt versta dæmið um það hvernig stórfyrirtæki geta fótum troðið mannréttindi fólks, sérstaklega í þróunarríkjunum, og komist upp með það. Ný skýrsla Amnesty International, Nigeria: Petroleum, Pollution and Poverty in the Niger Delta, sýnir glögglega hvernig olíurisinn Shell hefur um áratugaskeið mengað umhverfið á óseyrum Nígerfljóts og alvarlega skert þau jarðargæði sem nauðsynleg eru íbúum svæðisins til mannsæmandi lífs.

Íbúar sem búa nálægt olíuvinnslustöðum Shell í Nígeríu verða að notast við mengað vatn til drykkjar, þvottar, og matseldar; þeir veiða sér fisk til matar sem er mengaður hráolíu og öðrum eiturefnum, það er ef fiskur veiðist á annað borð, því lífríkið á óseyrum Nígerfljóts hefur beðið mikinn skaða af olíumenguninni.

Shell geri hreint fyrir sínum dyrum

Þrátt fyrir að olíuvinnsla Shell í Nígeríu hafi skilað ríkinu milljörðum Bandaríkjadala í tekjur lifa 70% almennra borgara undir fátæktarmörkum. Auðurinn safnast á hendur sárafárra. Olíuvinnsla á óseyrum Nígerfljóts hefur hneppt íbúa í fjötra fátæktar og leitt til alvarlegra mannréttindabrota, harðra átaka og örvæntingar.

Umhverfisspjöll sem hlotist hafa af starfsemi Shell hafa alvarleg heilsuspillandi áhrif á íbúana og ógna lífsviðurværi þeirra, þar á meðal fiskveiði og landbúnaði. Þá eru íbúar sjaldnast upplýstir um áhrifin sem olíuvinnsla Shell á svæðinu hefur á mannréttindi og umhverfi þeirra. Þrátt fyrir að Shell hafi árið 2008 lofað umbótum og ábyrgari starfsemi á óseyrum Nígerfljóts er enn hyldýpisgjá á milli loforða og efnda. Hvorki yfirvöld í Nígeríu né olíufyrirtækin sjálf hafa haft nægilegt eftirlit með áhrifum starfseminnar á umhverfið og látið undir höfuð leggjast að koma í veg fyrir alvarleg umhverfisspjöll og áhrif þeirra á lífsafkomu og mannréttindi íbúa svæðisins.

Amnesty International krefst þess að olíufyrirtækið Shell geri hreint fyrir sínum dyrum og viðurkenni áhrif olíumengunar á mannréttindi íbúa á óseyrum Nígerfljóts. Samtökin krefjast þess jafnframt að olíumenguð svæði verði hreinsuð að fullu, komið verði í veg fyrir frekari umhverfisspjöll og mengun, að lögboðið og reglubundið mat á áhrifum olíuvinnslu á mannréttindi íbúa verði tryggt og að þeir hafi fullan aðgang að upplýsingum um áhrifin á umhverfi sitt og mannréttindi.

Amnesty International bindur vonir við að Peter Voser, sem tók við embætti framkvæmdastjóra Shell í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Hollandi (Royal Dutch Shell) 1. júlí, muni hefja nýjan kafla í starfsemi Shell á óseyrum Nígerfljóts, þar sem ábyrgð og gagnsæi eru sett á oddinn og mannréttindi virt.

Alþjóðleg viðmið um ábyrgð fyrirtækja

Öll fyrirtæki bera ábyrgð á áhrifum starfsemi sinnar. En þrátt fyrir fjölda dæma um skýlaus réttindabrot fyrirtækja er ekki fyrir hendi neitt alþjóðlegt eftirlitskerfi með framferði fyrirtækja þegar kemur að mannréttindum. Og það eru oftast hinir fátæku sem bera meginþungann af slæmu framferði stórfyrirtækja. Skortur á refsiheimildum ýtir undir fleiri mannréttindabrot, sem festir enn frekar í sessi fátækt og misrétti, og grefur undan möguleikum fátækra til að fá grundvallarmannréttindi sín uppfyllt. Lykillinn að breytingum felst í raunverulegri ábyrgð fyrirtækja og fjármálastofnana á mannréttindum, ekki bara í orði heldur á borði.

Amnesty International mun leggja kapp á að brúa það hyldýpi sem nú ríkir á milli loforða og efnda um ábyrgðarskyldu fyrirtækja og alþjóðlegra fjármálastofnana. Það verður gert með því að kalla eftir sterkara regluverki, bæði á alþjóðavettvangi og innan einstakra ríkja, til að sporna megi við mannréttindabrotum, knýja fram alþjóðleg meginviðmið um mannréttindi sem fyrirtæki taki tillit til í allri áætlanagerð og á öllum stigum ákvarðanatöku, og að síðustu tryggja einstaklingum sem þolað hafa mannréttindabrot af hálfu fyrir­tækja aðgengi að réttarkerfinu.

Höfundur starfar sem herferða- og aðgerðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.




Skoðun

Sjá meira


×