Viðskipti innlent

Rannsóknir á Drekasvæðinu gætu hafist í sumar

Bandaríska fyrirtækið Ion GX Technology hefur sótt um leitarleyfi á Drekasvæðinu en fyrirtækið vill framkvæma mælingar á svæðinu í sumar til að selja áfram til fyrirtækjanna sem sóttu um sérleyfin. Samþykki Orkustofnun umsóknina verður hægt að byrja rannsóknir á Drekasvæðinu strax í sumar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar er fjallað um Drekasvæðið en tvö norsk fyrirtæki, Aker Exploration og Sagex Petroleum, hafa boðið í sérleyfi til olíuleitar á svæðinu.

Kunngjört verður í október hvort þau hljóti leyfin eður ei. Hægt verður að samþykkta bæði leyfin þar sem fyrirtækin sóttu ekki um leitar- og vinnsluleyfi á sama svæði en stærð hvers leyfissvæðis er takmörkuð við 800 ferkílómetra.

Greiningin segir að þrátt fyrir að formlegt ferli að rannsóknum á Drekasvæðinu sé nú hafið gæti það tekið áratugi þar til þessi auðlind færi að skila tekjum í þjóðarbúið. Enn sem komið er veit enginn með neinni vissu hvort vinnanlegt magn af olíu og gasi komi til með að finnast á svæðinu og mun það ekki koma í ljós fyrr en með árangursríkum borunum.

Í ljósi þess hversu sambærilegt Drekasvæðið er við svæði við Noreg og í Barentshafi þar sem fundist hafa olía og gas er það þó talið líklegt. Sú reynsla sem fengist hefur við vinnu af sambærilegum svæðum gefur til kynna að rannsóknir gætu tekið allt að áratug áður en nokkuð finnist. Finnist olía og gas í vinnanlegu magni, getur vinnslan tekið 20-40 ár.

Hinsvegar er mikilvægt að hafa í huga að þjóðarbúið mun hafa talsverðan hag af rannsóknarvinnu og olíu og gasleit á svæðinu enda er slík leit afar kostnaðarsöm og mun hafa talsverða veltu í för með sér og skapa störf sem er afar kærkomið í því árferði sem nú ríkir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×