Innlent

Nýtt kerfi afturför í öryggismálum á sjó

Fiskistofa hefur gefið út rúmlega 400 leyfi til strandveiða, sem eykur álag eftirlitsaðila.fréttablaðið/kjk
Fiskistofa hefur gefið út rúmlega 400 leyfi til strandveiða, sem eykur álag eftirlitsaðila.fréttablaðið/kjk

„Þetta er einfalt. Árið 2008 var fyrsta ár í Íslandssögunni þar sem ekkert banaslys varð á sjó í því kerfi sem hér hefur verið við lýði. Þetta er stór afturför í öryggis­málum sjómanna," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. Nú hafa rúmlega 400 leyfi verið gefin út af Fiskistofu til strandveiða.

Friðrik segir það hafa sýnt sig margoft um allan heim að fyrirkomulag á fiskveiðum þar sem um „kapphlaup um fisk" er að ræða hefur í för með sér að öryggisþættinum er fórnað fyrir möguleg uppgrip. „Það má búast við að menn rói í verri veðrum en skynsamlegt er og menn freistist til að sleppa eðlilegu viðhaldi á búnaði um borð."

Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, tekur undir sjónarmið Friðriks. „Þetta nær ekki nokkurri átt. Ég veit að áður en nokkur bátur hélt til strandveiða þá var Vaktstöð siglinga hlaðin störfum. Hvað svo þegar bætast við 400 bátar?" Árni segir það gefa auga leið að þeir sem nú rói til fiskjar undir merkjum nýs strandveiðikerfis hafi ekki allir þá reynslu sem til þurfi. „Við búum á einu erfiðasta hafsvæði í heimi og það er öfugsnúið að eini vaxtarbroddurinn sé í smábátaútgerð."

Árni minnir á skerta björgunargetu hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og að lítill tími sé yfirleitt til stefnu þegar óhöpp verði hjá smábátasjómönnum, oft langt frá landi.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Félags smábátaeigenda, tekur ekki undir það sjónarmið að öryggi sjómanna hafi verið fórnað með nýju kerfi. Hann minnir á að allir sem fari á sjó undir merkjum nýs kerfis þurfi að uppfylla ströng skilyrði. „Í ljósi þess met ég það svo að menn séu öruggir, þó að menn verði nú sem áður að vera varkárir og bera virðingu fyrir náttúruöflunum." Hann segir að í stórum hópi búi sjómenn yfir misjafnlega mikilli reynslu en allir geri sér grein fyrir því hvað það þýði að sækja sjóinn við Ísland. „Það eru þó vissulega mikil viðbrigði að skyndilega bætast við yfir 400 bátar til viðbótar á miðin." Örn, eins og aðrir forsvarsmenn sjómanna, gagnrýnir harðlega skerðingu á fjárveitingum til Gæslunnar.

Ásgrímur L. Ásgrímsson, yfirmaður Vaktstöðvar siglinga, segir Landhelgisgæsluna hafa átt gott samstarf við strandveiðimenn. Þeir leggi sig fram um að uppfylla öll öryggisskilyrði. Hann segir þó að annríki hjá Vaktstöð siglinga sé mikið en starfsmenn ráði vel við það. Á áttunda hundrað báta eru nú á sjó við Ísland að staðaldri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×