Erlent

Kosningaþáttaka dræm í Afganistan

Konur voru í miklum meirhluta þeirra sem nýttu atkvæðisrétt sinn í Afganistan.
Konur voru í miklum meirhluta þeirra sem nýttu atkvæðisrétt sinn í Afganistan. Mynd/ AFP
Kjörstöðum hefur nú verið lokað í Afghanistan en í dag fóru fram forsetakosningar í landinu. Ofbeldi og hótanir öfgamanna vörpuðu þó ákveðnum skugga á kosningadaginn.

Kosningaþáttaka hefur verið dræm, sérstaklega í suðurhluta landsins þar sem hótanir Talibana virðast hafa haft meiri áhrif. Árásir hryðjuverkamanna hafa urðu til þess að sumir kjörstaðir voru lokaðir á kosningadaginn.

Þrátt fyrir það stóðu margir Afganar fast á sínu, og mættu á kjörstað. Konur voru í miklum meirihluta þeirra sem virtu hótanir Talibana að vettugi en þeir höfðu meðal annars hótað að höggva fingur af hverjum þeim sem nýtti atkvæðisrétt sinn.

Léleg kjörsókn í suður hluta landsins er talin skaða sitjandi forseta, Hamid Karzai, sem sækist eftir endurkjöri. Stuðningur við hann kemur að mestu frá þeim landshluta.

Helsti andstæðingur Karzai og fyrrum utanríkisráðherra Afganistan, Abdullah Abdullah, er líklegur til að hagnast af því þar sem stuðningur við hann er mikill í norðurhluta landsins, þar sem kjörsókn var nokkuð góð.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni kjörnefndar var kosningaþátttaka um 40 prósent lakari en árið 2004.

Fregnir af ofbeldi bárust frá hinum ýmsu stöðum landsins og höfðu öryggisfyrirtæki og lögregla í nógu að snúast. Að minnsta kosti 23 létust í átökum víðsvegar um landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×