Skoðun

Svar óskast við 23 spurningum

Átta guðfræðingar spyrja í grein í Fréttablaðinu 3. desember: Hvert viljum við fara? Hafi þeir þökk fyrir það. Í kjölfarið fylgja 23 spurningar sem staðfesta hve ráðvillan og ráðleysið er átakanlegt ekki greinarhöfundanna heldur okkar allra. Allar skipta þessar spurningar okkur miklu máli.

Um þessar mundir er einblínt á efnahagslega þætti hrunsins, sem von er. En það var ekki aðeins tiltekin efnahagsskipan sem hrundi haustið 2008 heldur sjálfsmynd okkar í öllum skilningi. Heimóttaháttur og umkomuleysi virðast nú hafa tekið við belgingi og sjálfbirgingshætti fyrir hrun. Menn gleymdu, viljandi eða óviljandi, boðorðunum tíu og fornum dygðum. Sumir bera meiri ábyrgð en aðrir. Sumir lugu, aðrir stálu. Við horfðum hins vegar alltof mörg skilnings- og athafnalaus á. Biedermann leynist víða.

En aftur að spurningum guðfræðinganna. Hvernig á að svara þeim og hver á að svara þeim? Óhjákvæmilegt er að kalla á sviðið þann sem hefur stóru hlutverki að gegna: íslensku þjóðkirkjuna. Hún virðist standa á hliðarlínunni og dálítið eins og hún sé ekki alveg viss um hlutverk sitt. Hún ber ekki ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. En þjóðkirkjan má vita að hún hefur hlutverki að gegna. Hennar er ekki bara að spyrja spurninga. Hennar er líka að benda á leiðir að verðugum markmiðum og gera okkur kleift að feta þessar leiðir. Hennar ábyrgð felst í að grípa til aðgerða sem leiða okkur áfram og upp!

Þjóðkirkjan hefur vel efni á því að tala og miklu fremur efni á að leiða góð verk. Í kirkjum landsins er unnið mikið andlegt uppbyggingarstarf sem fer hljótt, kannski of hljótt. Sálgæsla og aðstoð við nauðstadda fer eðlis málsins ekki hátt. Fjölbreytt æskulýðs- og fjölskyldustarf kirkjunnar er þjóðinni mikilvægt, ekki síst á þessum tímum. Ef fleiri hefðu hlustað á siða- og réttlætisboðskap hennar væri kannski ekki eins illa komið fyrir okkur.

Það er hárrétt hjá greinarhöfundum að siðræn bylting þarf að eiga sér stað víða. En einhver þarf að leiða hana, setja henni markmið og vinna henni áætlun. Enginn hefur sterkara umboð til þess og enginn er færari eða bærari til þess en íslenska þjóðkirkjan.

Ég óska eftir nýrri grein frá guðfræðingunum átta með uppástungu um markmiðssetta áætlun um siðræna umbreytingu á Íslandi.

Jafnframt óska ég þess sem leikmaður að þjóðkirkjan leggi fram aðgerðaáætlun um nýja siðbót. Skapa þarf þjóðinni nýjan sáttmála við sjálfa sig.

Höfundur er í þjóðkirkjunni.




Skoðun

Sjá meira


×