Viðskipti innlent

Atvinnulausum erlendum ríkisborgurum fjölgar á ný

Eftir að hafa fækkað samfellt fimm mánuði í röð fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem eru án atvinnu í september. Í lok september voru alls 1.717 erlendir ríkisborgarar án atvinnu sem jafngildir um 12,5% allra á atvinnuleysisskrá.

Greining Íslandsbanka fjallar um nýjustu atvinnuleysistölurnar í Morgunkorni sínu. Þar segir að í lok ágúst voru erlendir ríkisborgarar 1.652 eða 11,5% af heildarfjölda á atvinnuleysisskrá. Má reikna með að atvinnuleysi meðal erlenda ríkisborgara hér á landi hafi náð toppi í mars síðastliðnum en þá voru þeir 2.146 talsins.

Eftir að bankahrunið skall á og hrinur hópuppsagna tóku við hjá fyrirtækjum voru erlendir ríkisborgarar meðal þeirra fyrstu sem misstu vinnuna en stór hluti þeirra var starfandi í þeim iðnaði sem fundið hefur einna harðast fyrir kreppunni, þ.e. byggingariðnaði.



Líklegt er að atvinnuleysi almennt hafi nú náð lágmarki sínu á árinu og taki að aukast á nýjan leik eftir því sem líður á veturinn vegna bæði árstíðarsveiflu og vaxandi slaka í hagkerfinu. Horfur er á að atvinnuástandið versni nú strax í október og áætlar vinnumálastofnun að atvinnuleysi komi til með að verða á bilinu 7,3%-7,8% í þeim mánuði.

Greiningin segir að því megi reikna með að atvinnuleysi komi til með að hækka nokkuð hratt á næstu mánuðum og telur að það nái hámarki í mars/apríl 2010. Búast má við að tala atvinnulausra gæti orðið á bilinu 18-20 þúsund þegar verst lætur í vetur og að atvinnuleysi verði á bilinu 10%-12%.

Þess má geta að í mars síðastliðnum voru alls 16.822 skráðir á atvinnuleysisskrá sem er meira en nokkru sinni fyrr. Þá mældist atvinnuleysið um 9,1%. Reikna má með því að ekki taki að draga úr atvinnuleysinu svo neinu nemi fyrr en á árinu 2011.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×