Viðskipti innlent

Skattabyrðin jókst mest á Íslandi af OECD ríkjum 1995-2007

Á síðustu árum hefur hlutfall skatta af landsframleiðslu á Íslandi verið töluvert yfir meðaltalinu í öðrum ríkjum OECD enda jókst skattbyrðin meira hér á landi en í nokkru öðru ríki á tímabilinu 1995 til 2007, eða úr 31,2% í 40,9%.

Þetta kemur fram í Moergunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þetta hafi augljóslega haft þau áhrif að staða Íslendinga í þessum samanburði breyttist verulega á þessum tíma. Af 30 ríkjum OECD var Ísland í 21. sæti árið 1995 yfir mestu skattbyrðina en var komið upp í 9. sæti árið 2007.

Miðað við tölur fyrir árið 2008 er þó ljóst að efnahagskreppan hefur dregið mun meira úr skatttekjum hins opinbera á Íslandi en í nokkru öðru ríki OECD.

Skattbyrði, reiknað sem hlutfall skatttekna hins opinbera af vergri landsframleiðslu, lækkaði mest á Íslandi af ríkjum OECD á milli áranna 2007 og 2008, eða úr tæplega 41% í 36%. Þóun þessi er ekki einsdæmi þar sem þetta skatthlutfall lækkaði í 17 af 26 aðildarríkjum OECD sem skilað hafa inn gögnum fyrir árið 2008.

Lækkunin er næst mest á Spáni (úr 37,2% í 33%) og þar á eftir á Írlandi (úr 30,8% í 28,3%). Líkt og hér á landi endurspeglar þessar lækkanir hrun ýmissa mikilvæga skattstofna, svo sem tekjuskatta, eignarskatta og skatta af vörum og þjónustu.

Í níu ríkjum af 26 hækkar skatthlutfallið á milli áranna 2007 og 2008. Hækkunin er mest í Mexíkó (úr 18% í 21,1%) og næst mest í Lúxemborg (úr 36,5% í 38,3%). Í Mexíkó endurspeglar hækkunin auknar tekjur af olíu en í Lúxemborg aukna innkomu af tekjusköttum og sköttum af vöru og þjónustu. Þetta kom fram í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um skattamál sem birt var í gær.

Að meðaltali var hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu 35,8% í ríkjum OECD árið 2007 og áætlar stofnunin að hlutfallið fari niður í 35,2% árið 2008. Auk þess bendir flest til þess að hlutfallið komi til með að lækka enn frekar á fyrirliggjandi ári en algengt er að skatttekjur minnki hlutfallslega meira en sem nemur lækkun vergar landsframleiðslu vegna þeirrar innbyggðu sveiflujöfnunnar sem er í skattkerfum flestra landa. Jafnframt hafa mörg aðildarríkjanna lækkað skatta til þess að mæta minnkandi eftirspurn í kjölfar fjármálakreppunnar.

Eins og kunnugt hefur þetta verið með öðrum hætti hér á landi þar sem skattar hafa verið hækkaðir og koma til með að hækka enn frekar um næstu áramót m.v. þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin kynnti nýverið. Þess má geta að þrátt fyrir umfangsmiklar skattahækkanir hér á landi stefna skatttekjur ríkissjóðs í hlutfalli við verga landsframleiðslu að verða með því lægsta sem það hefur verið undanfarin ár enda hafa ýmsir skattstofnar hrunið sem gefið hafa af sér drjúgar tekjur á undanförnum árum.

Sem hlutfall af landsframleiðslu var skattbyrðin mest í Danmörku (48,3%) á árinu 2008 og þar á eftir í Svíþjóð (47,1%). Finnland (42,8%) og Noregur (42,1%) eru ekki langt undan og verma 7. og 8. sæti yfir þau ríki með mestu skattbyrðina.

Miðað við þá áætlun OECD að hlutfall skatttekna verði um 35,2% að meðaltali í ríkjum OECD má sjá hversu hátt þetta hlutfall er á Norðurlöndunum. Ísland (36%) er þó einungis rétt yfir meðaltali þetta árið og skipar 14. sæti á þessum lista








Fleiri fréttir

Sjá meira


×