Viðskipti innlent

50 milljarða símalán hugsanlega gjaldfellt næstu daga

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Það kemur í ljós á næstu dögum hvort að fimmtíu milljarða króna lán fimm banka til Skipta, móðurfélags Símans, verði gjaldfellt. Verði það niðurstaðan er ljóst að félagið þarf að endurfjármagna sig en það gæti reynst erfitt miðað við stöðu á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Skipti er í eigu Existu sem er aftur í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Meðal fyrirtækja í eigu þess eru Síminn, Skjárinn og Míla sem rekur fjarskiptanet hér á landi. Þegar Skipti keyptu tæplega 99% hlut ríkisins í Landssíma Íslands árið 2005 voru kaupin fjármögnuð með sambankaláni. Alls koma fimm bankar að láninu, Nýi Kaupþing og gamli, Norræni fjárfestingarbankinn, Glitnir og Straumur.

Samkvæmt heimildum fréttastofu nemur heildarupphæðin um 50 milljörðum í dag. Stærsti hluti lánsins mun vera í bókum Kaupþings. Í lánabók Kaupþings fyrir hrun nam heildarskuld Skipta við bankann rúmum 54 milljörðum króna. Exista sem var stærsti hluthafinn í Skiptum var einnig einn af stærstu hluthöfum í Kaupþingi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa nú staðið yfir viðræður milli þessara fimm banka og forsvarsmanna Skipta. Skilmálar lánsins hafa verið brotnir, en þar er meðal annars að finna ákvæði um að skuldsetning félagsins verði að vera innan ákveðinna marka.

Það mun því koma í ljós á næstu dögum hvort lánið verði gjaldfellt en verði það niðurstaðan er ljóst að félagið þarf að endurfjármagna sig. Miðað við stöðu á alþjóðlegum lánamörkuðum gæti það reynst erfitt. Það mun þó vega þungt í viðræðunum að Skipti á um 21 milljarð króna í innstæðum.

Í samtali við fréttastofu sagði Pétur Þ. Óskarsson, talsmaður Skipta, að fyrirtækið hafi alltaf staðið í skilum með vexti og afborganir af láninu. Hinsvegar hefðu fjárhagsskilmálar raskast vegna efnahagsástandsins.Skipti eigi nú í viðræðum við sambankalánshópinn um lausn á málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×