Innlent

Mikilvægt fyrir Ísland að vera í NATO

Er á Íslandi í þriðja sinn og segir mikilvægt fyrir Ísland að vera hluti af NATO. Hver þjóð sé mikilvæg á sinn hátt. fréttablaðið/valli
Er á Íslandi í þriðja sinn og segir mikilvægt fyrir Ísland að vera hluti af NATO. Hver þjóð sé mikilvæg á sinn hátt. fréttablaðið/valli

Varnarmál Lawrence Chalmer er yfirmaður Menntunarstofnunar NATO og er á Íslandi í þessari viku til að eiga fund með þingmönnum og yfirmönnum hjá Varnarmálastofnun Íslands. Þetta er í þriðja sinn sem hann kemur til Íslands. Fréttablaðið tók viðtal við hann um stöðu Íslands innan Atlantshafsbandalagsins og um störf hans í þágu bandalagsins.

Chalmer segir NATO hafa vaxið mikið á undanförnum árum og áratugum. Upphaflega hafi þjóðirnar verið 12 árið 1949, en í dag eru þær 28. Verkefni NATO hafa verið að þróast og hefur NATO meðal annars hjálpað til við ástandið í Afganistan og gefið peninga til þróunaraðstoðar eftir flóðbylgjuna í Suðaustur-Asíu. Nýlega vann NATO með Afríkuráðinu vegna ástandsins í Súdan.

„Ýmis verkefni sem NATO hefur verið að vinna að eru einhver sem fólk hefði ekki getað ímyndað sér fyrir nokkrum árum að NATO væri að vinna að," segir Chalmer. Hann segir að jafnvel eftir tuttugu ár muni NATO vera að vinna að verkefnum sem við gætum ekki séð fyrir í dag hver væru. Bandalagið sé ört stækkandi og verkefnin fjölbreytt.

Mikilvægt er fyrir Ísland að vera í NATO, að mati Chalmers. „Hver þjóð kemur með eitthvað til starfsemi NATO, hvort sem það er læknisfræðilegt, varnarmálatengt eða annað því um líkt," segir Chalm­er. Hver og ein þjóð innan bandalagsins er mikilvæg á sinn hátt að mati Chalmers. Þjóðirnar vinni betur saman en hver í sínu lagi.

„NATO er ekki yfirþjóðlegt bandalag sem fer inn á valdsvið aðildarríkjanna. Hver þjóð getur valið um hvort hún er hluti af bandalaginu," segir Chalmer.

Chalmer vinnur fyrir Menntunarstofnun NATO í Washington. Þar fer meðal annars fram undirbúningur fyrir þá sem munu starfa fyrir NATO.

„Við kynnum fólkið fyrir þeim áskorunum sem þau geta staðið frammi fyrir," segir Chalmer um hlutverk menntunarstofnunarinnar. Hann rifjar upp að fyrir nokkrum árum hafi hann fengið íslenskan fyrirlesara til að tala við nemendur sína. Nemendunum hafi fundist gott og mikilvægt að heyra sjónarmið Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×