Erlent

Erfitt að vera sonur bin Laden

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Omar bin Laden.
Omar bin Laden.

Omar bin Laden segist langt í frá vera af sama sauðahúsi og faðir hans og kveðst auk þess hafa andúð á ofbeldi.

Það er ekki alltaf auðvelt að eiga frægan pabba og það hefur Omar bin Laden sannarlega fengið að reyna á eigin skinni. Omar er fjórði elsti sonur hryðjuverkakóngsins Osama bin Laden og segir eftirnafnið ekki beint verða sér til framdráttar. Omar leysir frá skjóðunni í viðtali við breska tímaritið New Statesman og rifjar þar meðal annars upp hina skelfilegu atburði 11. september 2001.

Þann dag var Omar staddur á heimili ömmu sinnar, móður Osama, og hafði fengið sér blund. Hann vaknaði heldur betur við vondan draum þegar frændi hans stóð æpandi yfir honum og hrópaði: „Sjáðu hvað pabbi þinn var að gera!" Frændinn benti honum á sjónvarpsskjá þar sem sjá mátti brennandi tvíburaturna í beinni útsendingu. Omar segist hins vegar ekki trúa því að Osama bin Laden hafi staðið á bak við þessar þrælskipulögðu árásir, til þess hafi samtök hans verið allt of veigalítil.

Þá skoðun hans setur hann auk annars fram í nýútkominni bók sem hann ritar í samstarfi við móður sína og metsöluhöfundinn Jean Sasson en verkið ber titilinn Að alast upp sem bin Laden, eiginkona og sonur Osama deila leyndarmálunum. Meðal þess sem fram kemur í bókinni er afsökunarbeiðni Omars til allra fórnarlamba föður hans. Bókin kom út fyrir mánuði og verður án efa vinsæl jólagjöf í Mið-Austurlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×