Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hækkaði milli mánaða

Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 1,2% í september frá fyrri mánuði á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Hækkunin er komin til bæði vegna þess að nafngengi krónunnar hækkaði um 0,5% og vegna þess að verðbólgan hér á landi var umfram það sem hún var í okkar helstu nágrannalöndum.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að frá því í upphafi síðastliðins árs hefur raungengi krónunnar hins vegar lækkað umtalsvert samhliða gengislækkun krónunnar og er það nú afar lágt í sögulegu samhengi. Þannig er raungengið nú um þriðjungi undir langtímameðaltali sínu og 44% lægra en það var í nóvember 2005 þegar það náði hámarki.

 

Þetta merkir m.a. að verðlag á Íslandi er mun lægra nú í samanburði við verðlag í öðrum ríkjum en verið hefur í áraraðir. Frá þriðja ársfjórðungi hefur raungengi krónunnar lækkað um 2,4% frá öðrum ársfjórðungi en um 21,7% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabankinn birti í gær.



Íslenskir launamenn eru nú mun ódýrari starfskraftur í samanburði við nágrannalönd okkar en raunin var undanfarin ár. Lækkun raungengis miðað við hlutfallslegan launakostnað nemur 30% ef þriðji fjórðungur þessa árs er borinn saman við sama tímabil í fyrra og sé farið tvö ár aftur í tímann nemur lækkunin tæpum 47%.

 

Lækkun raungengis felur því í sér að launakostnaður hér á landi hafi hækkað minna en í viðskiptalöndunum að teknu tilliti til gengisbreytinga og þannig að kraftar íslenskra launþega hafi að jafnaði lækkað í verði gagnvart starfsbræðrum þeirra í viðskiptalöndum okkar sem þessu nemur.



Kostir lágs raungengis eru að það eykur samkeppnishæfni innlendra aðila hvað varðar framleiðslukostnað vöru og þjónustu og flýtir fyrir aðlögun hagkerfisins í átt að ytra jafnvægi. Þannig hjálpar það útflutningsatvinnuvegum, auk þeirri innlendu starfsemi sem á í samkeppni við innflutning.

 

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki ættu að njóta góðs af lágu raungengi þar sem kaupmáttur erlendra ferðamanna sem leggja leið sína hingað til lands er mun meiri en áður sem eflaust ætti að leiða til þess að þeir komi til með gera betur við sig í mat, drykk og afþreyingu en undanfarin ár.

 

Á hinn bóginn gerir lágt raungengi krónunnar það að verkum að kaupmáttur Íslendinga á erlendri grundu hefur snarminnkað. Þetta hefur m.a. haft þau áhrif að landinn hefur snardregið úr utanferðum en á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafði brottförum Íslendinga fækkað um 45% frá sama tímabili í fyrra. Jafnframt er lágt raun- og nafngengi mikill vágestur heimilanna þar sem það eykur lánsfjárkostnað þeirra, hvort sem um er að ræða gengis- eða verðtryggð lán, og skerðir kaupmátt ráðstöfunartekna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×