Erlent

Glænýr sáttatónn í Írönum

Óli Tynes skrifar
Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans.
Mahmoud Ahmadinejad forseti Írans.

Í ræðu sem hann hélt í Íran í dag sagði Mahmoud Ahmadinejad forseti að samskiptin við Vesturlönd hefðu breyst úr árekstrum í samvinnu.

Hann bar sérstakt lof á Alþjóða kjarnorkumálastofnunina sem gegndi mikilvægu hlutverki. Samskipti Írana við stofnunina hafa annars sannarlega einkennst af árekstrum undanfarin ár.

Ahmadinejad sagði ennfremur að Íranar væru reiðubúnir til viðræðna við Bandaríkin og bandamenn þeirra um þróun kjarnorkuiðnaðar í landinu og að tillögur sem nú lægju fyrir væru sigur fyrir Íran.

Þær tillögur miða að því að Íranar sendi úraníum úr landi til auðgunar. Það yrði svo flutt aftur til landsins og notað í læknisfræðilegum rannsóknum og til þess að knýja orkuver.

Búist er við að Íranar gefi endanlegt svar við þessum tillögum á morgun.

Ef svarið verður jákvætt gæti það mjög dregið úr spennu milli Írans og Vesturlanda út af kjarnorkuáætlunar landsins.

Fleiri tala nú í Íran á svipuðum nótum og forsetinn. Þingmaðurinn Hossein Ebrahimi sagði í viðtali við fjölmiðla að kjarnorkuviðræður milli Írans og Vesturlanda séu nú mun jákvæðari en áður.

Tortryggnin sem ríkt hafi undanfarin misseri sé smám saman að hverfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×