Erlent

Múrinn kom í veg fyrir blóðsúthellingar

Berlínarbúar minntust þess um helgina að tuttugu ár eru í dag liðin frá því Berlínarmúrinn var opnaður.Nordicphotos/AFP
Berlínarbúar minntust þess um helgina að tuttugu ár eru í dag liðin frá því Berlínarmúrinn var opnaður.Nordicphotos/AFP

„Þetta var hræðilegt því ég áttaði mig á því að flokkurinn og ríkisstjórnin höfðu brugðist mér og að félagar mínir stæðu ekki með mér,“ segir Harald Jäger, austur-þýski landamæravörðurinn sem fyrstur opnaði hlið á Berlínarmúrnum að kvöldi 9. nóvember 1989.

Hann segist vera ánægður núorðið með frumkvæðið sem hann tók þetta kvöld, en á sínum tíma var hann afar ósáttur við rás atburðanna. „Hugmyndaheimur minn féll algerlega saman.“

Mannfjöldinn beið í ofvæni eftir að komast yfir. Günter Schabovski, upplýsingafulltrúi austur-þýsku stjórnarinnar, hafði fyrir mistök lýst því yfir að fólki væri frjálst að fara ferða sinna. Í reynd átti það ferðafrelsi ekki að taka gildi fyrr en daginn eftir.

Jäger var nýbúinn á vaktinni sinni við landamærahliðið á Bornholmer Strasse í Berlín og ætlaði að fá sér samloku.

„Ég hafði varla fengið mér fyrsta bitann þegar ég heyrði þessi eftirminnilegu orð Schabovskis.“ Hann hafði engin fyrirmæli frá yfirboðurum sínum, en sá að engin leið yrði að hemja mannfjöldann nema opna hliðið upp á gátt.

„Ég er engin hetja,“ segir hann. „Ég gerði aðeins það sem rétt var þetta kvöld.“

Eftir á að hyggja segist hann telja ákvörðun sína líklega hafa komið í veg fyrir að blóðsúthellingar yrðu. „Það er það eina sem ég get verið stoltur af. Að engu blóði var úthellt þetta kvöld, aðeins gleðitárum og köldum svita.“

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×