Innlent

Piparúði notaður gegn ísbjörnum

Pottar og pönnur og piparúði eru meðal helstu vopna í innbyrðisátökum Íslendinga síðustu mánuði og misseri. En þessir hlutir eru líka prýðilegar ísbjarnafælur. Sú er að minnsta kosti reynsla íslenskra ferðamanna sem fóru um Grænland fyrir skömmu og glímdu við birni.

Flestum er í fersku minni þegar ísbirnir gengu á land hér norðanlands í fyrra. Menn fóru á vettvang til að fanga birnina, en svo fór að þeir voru felldir.

Nokkrir Íslendingar voru á ferð í Sermilikfirði á Grænlandi, í byrjun ágúst. Þar rakst fólkið á ísbjörn, sem lét sér ekki duga að synda samferða kajakfólki um stund, heldur heimsótti tjaldbúðir fólksins um kvöldið. Ferðalöngum tóks að hræða björninn með hávaða; barið var á potta og pönnur, sem er kunn íslensk aðferð. Björninn hvarf hann til sjávar. Lítið var hins vegar sofið í tjöldunum þá nóttina.

Dagný Indriðadóttir, leiðsögukona, var á leið til fjalla þar á Grænlandi, með annan hóp. Henni var bent á að verjast björnum, eftir þessa reynslu landa sinna. „Ég vildi ekki bera byssu, enda er best að reyna ekki að fella dýr í útrýmingarhættu. En ég spurðist fyrir um þetta hjá heimamönnum, og þeir létu mig fá piparúða."

Samkvæmt leiðbeiningum á úðanum, segir Dagný, er hann löggilt bjarnarfæla. Hins vegar verður honum ekki komið við, fyrr en björninn er kominn nærri. Sem betur fer, segir Dagný, komu engir birnir nálægt í hennar ferð, og ekki reyndi á bjarnarfæluna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×