Innlent

Þrílitu bindin seldust upp

Gústaf Gústafsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu, Valtýr Helgi Diego og Vilhjálmur Svan, verslunarstjóri Herragarðsins í Kringlunni.
Gústaf Gústafsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu, Valtýr Helgi Diego og Vilhjálmur Svan, verslunarstjóri Herragarðsins í Kringlunni.

Krabbameinsfélag Íslands stóð í annað sinn fyrir átakinu „Karlmenn og krabbamein" í mars. Átakið vakti mikla athygli en því var ætlað að vekja karlmenn til vitundar um krabbamein og þátt heilbrigðs lífsstíls í forvörnum gegn þessum erfiða sjúkdómi. Þrílit bindi sem seld voru til styrktar átaksins í verslunum Herragarðsins eru nú uppseld. Ágóðinn af sölunni var ríflega 1,2 milljónir króna en alls seldust 279 bindi.

Litirnir þrír, blár, hvítur og fjólublár, tákna þrjú algengustu krabbamein hjá körlum; blöðruhálskirtils-, lungna- og ristilkrabbamein.

„Við erum stoltir af að styðja við átak á borð við þetta, en mikið hefur skort á umræðu um karla og krabbamein," segir Hákon Hákonarson hjá Herragarðinum. „Salan gekk mjög vel og bindin seldust upp hér í verslun okkar í Kringlunni."

„Rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir allt að eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum með því að borða hollari mat, stunda líkamsrækt, stilla drykkju og sólböðum í hóf og halda sig frá reykingum," segir Gústaf Gústafsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu.

„Batahorfur þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi eru almennt góðar en brýnt er að greina meinin snemma, og því skiptir máli að karlar séu meðvitaðir um krabbamein og einkenni þeirra. Með þrílita bindinu gefst okkur færi á að sýna samstöðu og vekja aðra menn til meðvitundar um krabbamein," segir Gústaf og bætir við að vonir standi til að gera samstarfið við Herragarðinn að árlegum viðburði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×