Viðskipti innlent

Kaupþing lánaði NIBC tugi milljarða vegna bandarískra undirmálslána

Sigríður Mogensen skrifar
Kaupþing lánaði eigendum hollenska bankans NIBC tugi milljarða króna til að hreinsa bankann af bandarískum undirmálslánum en heimtur af slíkum lánum hafa verið um tvö prósent. Undirmálslánin fóru inn félag í eigu þessara aðila sem skráð var á Cayman eyjum.

Kaupþing ákvað í ágúst 2007 að kaupa hollenska bankann NIBC. Um hefði verið að ræða stærstu yfirtöku útrásarinnar.

Í tilkynningu Kaupþings frá því 15. ágúst 2007 kom fram að húsnæðislánasafn NIBC sem tengist undirmálslánum væri ekki hluti af kaupunum og verði undirmálslánin flutt í sérstakt félag, stjórnað af seljendum NIBC. Kaupþing beri því enga áhættu tengdri annars flokks húsnæðislánum.

Samkvæmt heimildavinnu fréttastofu hét umrætt félag Onca og var það skráð á Cayman eyjum. Það sem hins vegar var ekki tekið fram í þessari fréttatilkynningu er að Kaupþing lagði Onca til 236 milljónir dollara, eða tæpa þrjátíu milljarða króna. Lánið var síðar lækkað niður í 136 milljónir bandaríkjadala. Það var skráð sem eign í bókum Kaupþings. Undirliggjandi eignir Onca voru metnar á 85 milljarða, en heimturnar af eignum sem þessum hafa verið í kringum 2%.

Með öðrum orðum lánaði Kaupþing eigendum NIBC þannig að þeir gætu keypt undirmálslánin út úr hollenska bankanum. Markmiðið með þessu var að hreinsa NIBC af lélegum bandarískum húsnæðislánum áður en Kaupþing eignaðist bankann.

Samkomulag þetta virtist vera háð því að yfirtakan á NIBC í gegn. Í lok janúar 2008 var kaupunum hins vegar rift, Fjármálaeftirlitið hér á landi stöðvaði yfirtökuna. En hliðarsamningurinn var ekki með riftunarákvæði og Kaupþing sat því uppi með fjárfestinguna í undirmálslánum. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um tap bankans vegna þessa, en kröfuhafar bera slíkt tjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×