Viðskipti innlent

Kæru SVÞ á hendur Ríkiskaupum var vísað frá

Kærunefnd útboðsmála hefur vísað frá kæru Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) á hendur Ríkiskaupum. Samkvæmt kærunefndinni heyrir framsal rammasamninga ekki undir lög um opinber innkaup eins og SVÞ héldu fram í kæru til kærunefndar útboðsmála.

Í tilkynningu segir að þann 26. maí sl. kvað kærunefnd útboðsmála upp úrskurð í kærumáli sem SVÞ höfðu uppi fyrir hönd Egilsson/Office1 gagnvart Ríkiskaupum vegna framsals á rammasamningi um ritföng og skrifstofuvörur.

Kærunefndin vísaði kröfum SVÞ frá með þeim rökum að í framhaldi af útboðsferli í samræmi við lög hafi verið undirritaðir rammasamningar og valdsvið nefndarinnar nái ekki til að úrskurða um neitt það er varðar framkvæmd samninganna eftir að þeir höfðu formlega komist á.

SVÞ töldu í kæru sinni að um brot á lögum um opinber innkaup væri að ræða og samkvæmt þeim sé kaupanda, sem sé aðili að rammasamningi, óheimilt að bjóða út innkaup eða kaupa inn með öðrum hætti framhjá rammasamningi ef slíkur samningur tekur til innkaupanna og honum hafi hvorki verið sagt upp né rift. Kaupandi sé því bundinn af rammasamningi.

Ríkiskaup áréttuðu fyrir kærunefnd að í öllum rammasamningum sé að finna ákvæði um framsal, þar á meðal í samningnum sem gerður var við Egilsson/Office1. Þeim hafi því mátt vera kunnugt um ákvæðið og hafi haft tækifæri til athugasemda þegar samningurinn var undirritaður eða innkaupin boðin út.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×