Skoðun

Gegn atvinnuleysi í Reykjavík

Oddný Sturludóttir skrifar

Einn alvarlegasti fylgifiskur efnahagshrunsins sem varð á Íslandi síðasta haust er atvinnuleysið. Nú eru 14.780 þúsund einstaklingar atvinnulausir á landinu öllu, í Reykjavík voru í september 6.177 manns atvinnulausir, þar af höfðu 3.507 verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur. Spá borgarhagfræðings um atvinnuleysi á árinu 2010 gerir ráð fyrir 11,5% atvinnuleysi.

Atvinnuleysi er böl þeirra sem fyrir því verða og samfélagsins alls. Að ráða bug á því er erfitt viðfangsefni sem krefst samstillts átaks margra. Hlutverk stjórnvalda er vitanlega fyrst og fremst að skapa efnahagslegt jafnvægi svo atvinnulífið nái sér á strik á nýjan leik en ekki má gleyma að sinna þeim þúsundum sem eru án atvinnu í dag.

Sérstakur atvinnumálahópur hefur starfað á vettvangi borgarstjórnar og fylgst með þróun atvinnuleysis og undirrituð tók við stjórn hans í júní síðastliðnum. Stærsta verkefni hans er að miðla upplýsingum til borgarstjórnar um þróun atvinnuleysis og vinna leiðbeinandi viðmið við gerð fjárhagsáætlunar sem snúa að því að lágmarka áhrif atvinnuleysis á ólíka hópa samfélagsins.

Hversu mörg störf skapar hver króna?Það er sérstaklega mikilvægt að borgarfulltrúar staldri við hverja einustu krónu sem fer til framkvæmda og verkefna á vegum borgarinnar og spyrji sig: Hversu mörg störf skapar hún? Í þessum anda eru ofangreind viðmið.

Mikið verk hefur verið unnið af hálfu hins opinbera til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. En ekki síst hafa ótal verkefni sprottið upp síðastliðið ár á vettvangi stéttarfélaga, grasrótarsamtaka, háskólanna, símenntunar- og fræðsluaðila í formi námskeiða, virkniverkefna og ráðgjafar. Samvinna, samstarf og samhæfingMín skoðun er hins vegar sú að verk sé að vinna þegar kemur að samvinnu. Atvinnuleysið er af slíkri stærðargráðu á Íslandi að það er algjört forgangsmál að þétta raðirnar, stilla strengi og samhæfa aðgerðir.

Nú er fjármagn af skornum skammti. Þar af leiðandi ríður á að leita allra hugsanlegra leiða til að nýta sem best þá fjármuni, þekkingu, aðstöðu, og mannafla sem þegar er til staðar. Gæfuríkt spor væri að ríki og borg geri með sér nokkurs konar sáttmála um að nýta allar sínar bjargir, hvort sem um þekkingu, mannafla eða aðstöðu er að ræða. Tangarsókn

Við höfum vítin til að varast þau. Nærtækasta dæmið er Finnland, en reynsla þeirra sýnir að sú kynslóð sem verst fór út úr efnahagslægðinni í Finnlandi á árunum "91-"93 var unga kynslóðin sem festist í djúpum sporum atvinnuleysis í upphafi starfsferils síns. Afleiðingarnar voru skelfilegar fyrir stóran hóp fólks. Það er víðtæk skoðun fræðimanna sem rannsakað hafa samfélög sem glímt hafa við mikið atvinnuleysi að afleiðingar þess verða alvarlegri því yngra sem fólk er.

Glíman við atvinnuleysið er þess eðlis að blása þarf til tangarsóknar. Hverri krónu sem varið er til ráðgjafar, starfsþjálfunarúrræða og virkniverkefna er vel varið. Það er sameiginlegt verkefni samfélagsins alls að aðstoða atvinnuleitendur á Íslandi enda eru félagslegar afleiðingar atvinnuleysis margþættar. Veraldleg áhrif eru augljós og birtast í víðtækum efnahagslegum erfiðleikum. Andleg áhrif atvinnuleysis eru lágt sjálfsmat, kvíði og depurð. Einstaklingur sem ekki hefur atvinnu og nýtir sér ekki menntunarúrræði, ráðgjöf eða námskeið bíður þess oft ekki bætur. Það er fórnarkostnaður sem má fyrir alla muni aldrei komast á gjalddaga.

Höfundur er borgarfulltrúi og formaður atvinnumálahóps borgarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×