Innlent

Vonar að minnisblað Ingibjargar breyti hugarfari þingmanna

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, vonast til þess að minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, til utanríkismálanefndar Alþingis breyti hugarfari þingmanna og orðræðinu í Icesave málinu. Hún segir að minnisblaðið hafi komið sér á óvart.

Ingibjörg Sólrún dregur upp mynd af því sem gerðist bak við tjöldin í harðri milliríkjadeilu Íslendinga við Breta og Hollendinga í minnisblaði til utanríkismálanefndar. Hún segir að í stað þess að efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS sem undirrituð var í október í fyrra, fengi eðlilega afgreiðslu hafi ferlið verið teppt án viðvarana og hreinskiptni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að í minnisblaðinu tæti Ingibjörg Sólrún í sig grunnstoðirnar í málflutningi ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu.

Birgitta segir ljóst að embættismenn og samninganefnd ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið nægjanlega harðir af sér í viðræðum við hollensk og bresk stjórnvöld. Margt af því sem komi fram í minnisblaði Ingibjargar sé í svokallaðri leynimöppu um Icesave málið sem Birgitta hefur barist fyrir að verði opinberuð. Hún telur brýnt að skjölin verði gerð opinber.

Birgitta vonast til þess að stjórnarliðar taki sér tíma yfir hátíðirnar til að fara betur yfir Icesave málið og þá með hliðjón af þeirri gagnrýni sem kemur fram í minnisblaði Ingibjargar. Mikilvægt sé að stjórnarliðar skoði hvort ekki sé önnur leið fær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×