Erlent

Undrun yfir friðarverðlaunum Obamas

Óli Tynes skrifar

Áttatíu og tveggja ára gömul Bandarísk kona sagði þegar hún heyrði að Barack Obama hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels; -Það er dásamlegt. Ég vildi bara að ég vissi af hverju.

Þessi orð eru líklega lýsandi fyrir viðbrögð umheimsins við fréttunum. Reuters fréttastofan segir að blaðamenn sem voru á fundinum í Osló þegar þetta var tilkynnt hafi sopið hveljur af undrun.

Flestir virðast sammála um að Obama sé hinn ágætasti maður og ekki sé ástæða til þess að efast um friðarvilja hans. Hinsvegar sé vandséð hvað hann hafi gert til þess að eiga þau skilið á þessum tímapunkti.

Þjóðarleiðtogar hafa flestir brugðist kurteislega við og óskað Bandaríkjaforseta til hamingju. Einn eða tveir þeirra hafa þó haft á orði að með þessu sé auðsjáanlega verið að hvetja Obama til dáða.

Það mætti þá kannski kalla þetta hvatningarverðlaun Nóbels.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×