Skoðun

Hugleiðing um leikdóm

Ég gekk hlæjandi inní útrýmingarbúðirnar og kom mér hlæjandi fyrir undir sturtuhausnum í gasklefanum, það var geðveikt fyndið, ég var ein á meðal annarra og ég blés á dauðann. Enda kem ég frá Íslandi, landi hinna góðhjörtuðu sem fótgangandi og án raforku draga vagn hinna ríku og hafa af því hreinan unað - af því - lífið er fyrst og fremst fyndið. Líka á meðan hangið er í ólinni, eða snörunni, eða hvort segir maður? Stanslaust stuð, fjör að eilífu. Ég býð stóru köllunum að flengja mig ókeypis, og ég borga þeim líka fyrir það, og þá má ég líka flengja útlendinga og þá sem ég tel verr setta en mig. Hlæjum saman - ha, ha, ha - afþvíað lífið er hvort eð er bæði fyndið og vonlaust og innst inni þráum við að deyja; fínt að láta aðra sjá um aftökuna afþvíað þannig verðum við stikkfrí og börnin geta hefnt okkar. Ha, ha, ha! Það var níðst á mér og þess vegna hef ég leyfi til að níðast á öðrum. Fyrir þetta fagra land, fögru og óspilltu náttúru og hreinleika tungunnar dey ég - mér blæðir út af hreinræktaðri ást! Ég er fótgönguliði í fremstu víglínu hers bankamanna og ljósleitra og mynduglegra útrásarvíkinga. Þetta er fórnarkostnaðurinn: - ég!"

Svona myndi íslenskt skáld kannski reyna að skrifa inní leikrit til að geðjast gagnrýnanda Fréttablaðsins, Elísabetu Brekkan, sem biður um „meiri húmor í heildina" í leiksýninguna Orbis Terræ Ora sem fram fer í Þjóðmenningarhúsinu á Listahátíðinni í Reykjavík þetta vorið.

Ósk gagnrýnanda Fréttablaðsins um húmor í sýninguna Orbis Terræ Ora er eflaust til marks um kröfu þessa áratugar: hlæjum - okkur í hel! Hlæjum og sýnum hvorki neikvæðni né biturð á meðan við erum leidd grunlaus til sláturhúss. Hlæjum bara sátt á meðan menn gerast auðkýfingar með því að fífla okkur afþvíað hláturinn er besta meðalið. En ég á bara bágt með að skilja hvað hlátur á upp á borð í sýningunni í Þjóðmenningarhúsinu og geri ekki kröfu um húmor í leikrit sem fjallar um flóttamannabúðir, stríð, nauðganir, fasisma, afþví ég vil ekki sitja þeim megin við borðið og hlæja með bóndanum sem í gegnum kíki sinn horfir á litlu lömbin. Þó hló ég oft gagntekin af leikritinu inní leikritinu, límd við glerrúðuna sem áhorfandinn horfir í gegnum á fimm leikkonur og einn leikara flytja atriði sem bauð uppá það sem leikhús býður: húmor, alvöru, dramatík, frábæran leik, frábæra leikmynd og búninga og frábæran texta. Atriðið færði mér aftur frumefnin í leikhúsinu, það sem kveikir manni ævilanga ástríðu fyrir fyrirbærinu leikhús. Þetta sama atriði hunsar gagnrýnandi Fbl í umfjöllun sinni og gerir lítið úr, án röksemda: atriði þar sem leikkonurnar fara á kostum. Augljóslega deili ég ekki smekk með gagnrýnandanum.

Þá skil ég ekki hvernig gagnrýnandi Fbl getur ekki tengt sýninguna í Þjóðmenningarhúsinu við óteljandi atriði úr okkar samtíð, svo mörg eru þau að manni sundlar við tilhugsunina og tvístígur dálítið. Líkt og ævintýrið um Hans og Grétu er saga þar sem raunveruleikinn er ýktur, uppblásinn, Eraserhead eftir David Lynch er saga þar sem raunveruleikinn er ýktur, uppblásinn; raunveruleikinn sinnum 3; þá er sýningin í Þjóðmenningarhúsinu samtími okkar sinnum 0,7 - sinnum 1,5. Við þekkjum dæmin allt í kring:

Við erum beðin um kennitölu í efnalaugum og vídeóleigum, í leikhúsum jafnvel, þegar við kaupum miða á tónleika. Hópur fólks fer inní mannautt hús, það er rekið þaðan út með vopnum og valdi. Orðið mannauður er notað óspart í fréttatímum, ritgerðum og greinum og orðið minnir mann ekki lítið á gullið í tönnunum. Rúmlega 600 manns hafa leitað pólitísks hælis á Íslandi á síðustu x árum og aðeins einn hælisleitandi hefur fengið hæli - á hvað minnir það? Og hvar eru hinar rúmlega sexhundruð manneskjur mínus ein staddar núna þegar þetta er ritað? Nokkrir tónlistarmenn voru reknir úr landi fyrir að spila á harmonikku niðri í Austurstræti nokkur sumarkvöld - á hvað minnir það mann? Hvert færu íbúar þessa fagra lands þegar þar að kæmi?

Ég hvet alla til að sjá sýninguna í Þjóðmenningarhúsinu, sérstaklega ungt fólk.

Höfundur er skáld.




Skoðun

Sjá meira


×