Erlent

Verðandi varnarmálaráðherra Írans eftirlýstur fyrir sprengjuárás

Guðjón Helgason skrifar
Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti.

Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, hefur útnefnt Ahmda Vahidi sem varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Írans. Þing landsins á eftir að staðfesta útnefningu Vahidi og tuttugu annarra ráðherra í ríkisstjórninni.

Vahidi er eftirlýstur af alþjóðalögreglunni, Interpol, eftir að argentínsk stjórnvöld gáfu út handtökuskipun á hendur honum.

Ráðherraefninu og fimm öðrum mönnum er gefið að sök að hafa skipulagt og framkvæmt sprengjuárás á samkomuhús gyðinga í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, árið 1994. Áttatíu og fimm féllu í árásinni. Árásin var sú versta á skotmark tengdu gyðingum utan Ísrael síðan í seinni heimsstyrjöldinni.

Vahidi, sem var aðstoðarvarnarmálaráðherra í ríkisstjórn Ahmadinejads á síðasta kjörtímabili, hefur verið á lista Interpol síðan í nóvember 2007.

Saksóknari í Argentínu segir að tekist hafi að fá það staðfest að Vahidi hefði setið fund í Írak í ágúst 1993 þar sem ákveðið hafi verið að láta til skarar skríða.

Argentínumenn og Ísraelar segja það áhyggjuefni að írönsk stjórnvöld hafi útnefnt Vahidi í embættið. Þetta sýni að ekki sé hægt að treysta Ahmadinejad Íransforseta.

Ráðamenn í Teheran vísa gagnrýninni á bug, segja þetta samsæri síonista og spyrja af hverju málið hafi fyrst komist í hámæli nú. Vahidi hafi verið í áhrifastöðu í ríkisstjórn Írans í nokkur ár. Allt útlit sé fyrir að um nýtt bragð gegn sitjandi Íransforseta sé að ræða eftir umdeildar forsetakosningar og óeirðir í Íran í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×