Erlent

Innkalla milljónir bíla vegna gólfmottu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Toyota í Bandaríkjunum mun innkalla tæplega fjórar milljónir bíla vegna hættulegra gólfmotta.

Vandamálið lýsir sér þannig að lausar gólfmottur við bílstjórasætið eiga það til að lyftast upp og þrýsta bensíngjöfinni niður. Leikur grunur á að þetta hafi valdið slysum sem kostað hafi allt í allt fimm manns lífið sem komið er.

Þetta kemur langt í frá á besta tíma fyrir Toyota sem barist hefur í bökkum vegna sölusamdráttar víða um heim, ekki síst í Bandaríkjunum. Ray LaHood, samgönguráðherra Bandaríkjanna, segir málið mjög brýnt, vitað sé um 100 tilvik þar sem mottan hafi ýtt á bensíngjöfina og af þeim tilfellum hafi sautján endað með árekstri.

Alls þarf að innkalla 3,8 milljónir Toyota-bíla með tilheyrandi kostnaði og lækkuðu hlutabréf í Toyota um 1,1 prósent í morgun þegar fregnirnar spurðust út. Stærsta innköllun Toyota hingað til var á 900.000 bílum árið 2005 vegna bilunar í stýrisbúnaði en vandinn er meiri í þetta skiptið.

Ekki er nema mánuður síðan lögreglumaður á frívakt lést ásamt þremur úr fjölskyldu hans í San Diego þegar mottan í glænýjum Lexus sem hann ók festi bensíngjöfina og bíllinn fór út af veginum á 193 kílómetra hraða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×