Viðskipti innlent

Fjöldi sumarhúsa til sölu hefur þrefaldast

Fjöldi sumarhúsa á söluskrá hefur þrefaldast á einu ári. Lætur nærri að 5-6% allra sumarhúsa á landinu séu nú til sölu.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að sumarhús á Íslandi séu 11.500 talsins sem jafngildir því að um eitt sumarhús sé á hverjar 7 fjölskyldur. Sumarhúsum á Íslandi fjölgaði mikið í undangenginni hagsveiflu og verð þeirra hækkaði. Hækkandi ráðstöfunartekjur og eignaverð ásamt greiðu aðgengi að lánsfé gerði það að verkum að sumarhúsaeigendum fjölgaði.

Vaxandi eftirspurn eftir sumarbústaðalóðum gerði það að verkum að lóðaverð hækkaði gríðarlega í verði og margar jarðir sem áður voru nýttar til landbúnaðar fóru undir sumarhúsabyggðir.

Núna í niðursveiflunni virðast sumarhúsin vera með því fyrsta sem fólk vill losa sig við til að minnka efnahagsreikninginn og bregðast við nýjum efnahagslegum veruleika. Á fasteignavef MBL eru nú 648 sumarhús auglýst til sölu og á fasteignavefnum habil.is eru sumarhúsin 524 sem auglýst eru til sölu. Þetta er þrefalt meiri fjöldi en var fyrir ár síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×